Anna Álfheiður Brynjólfsdóttir myndlistarkona og kennari viðurkennir að hafa farið alla leið í tískunni sem unglingur. Permanent tólf ára, hringur í nefið og rakaði af sér hárið einhverjum árum síðar. Í unglingatískunni segist hún samt hafa toppað sjálfan sig á fermingardaginn.
Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég stilli klukkuna hálf sjö ef ég á að mæta í kennslu en hálf átta eða átta ef ég er að fara á vinnustofuna.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég er rosa mikill nautnaseggur en tek það út frekar á því að drekka kaffi á morgnanna en sofa, því ég þoli ekki að flýta mér út.
Finnst æði að geta vaknað aðeins fyrr bara til að hanga ein með sjálfri mér, dóla og drekka kaffi. Bara veit ekkert betra en þessa heilögu stund.
Fæ mér alveg nokkra kaffibolla áður en ég nenni að hafa mig til. Og svo allt í einu er maður komin með kaffi adrenalín í kroppinn sem er dásamleg tilfinning og þá getur maður byrjað daginn.“
Nefndu dæmi um hallærislega tísku sem þú fílaðir í tætlur sem unglingur.
„Mér fannst ég náttúrulega mjög töff í fatavali þegar ég var unglingur sem er auðvitað fyrir öllu. Fór algjörlega mínar eigin leiðir þar. Á meðan flestar vinkonur mínar voru í pilsum og kjólum þá var ég í leðurbuxum og keypti mér skyrtur, stundum mjög litríkar í Spútnik og í Kolaportinu.
Þessi fatnaður var nú smá í stíl við músíkina sem ég hlustaði á. Ég var alls ekki mikð fyrir “píkupoppið” heldur elskaði ég grunge -ið. Já heyrðu, svo rakaði ég af mér allt hárið þegar ég var sautján átján ára, bara svona til að prófa og fékk mér svo hring í nefið og naflann í stíl.
En það mætti kannski segja að ég hafi toppað mig á sjálfan fermingardaginn.
Þá var ég í skræpóttum sixties bol, skærgrænum skokk, appelsínugulum sokkabuxum og með sixtiees greiðslu, djúpa skiptingu til hliðar, túperaðan hnakka og svo að sjálfsögðu stífmáluð eins og stelpur eru yfirleitt um þrettán fjórtán ára. Sumsé NOT.
Við vorum tvær vinkonurnar sem fóru alla leið í stílnum. Maður flissar nú alveg smá yfir þessum myndum í dag.
Nú svo má nú líka nefna permanent tímabilið sem var hjá mér aðeins á undan. Ég var um tólf ára þegar ég fékk fyrst permanent. Þegar maður pælir í því þá leyfðu foreldrar börnum sínum allskonar vitleysu á 80’s og 90’s tímabilinu. Það var eitthvað svo mikið frelsi í öllu. Sem er smá fyndið í dag.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Ég var að ljúka við að koma upp myndlistasýningu á Mokka. Opnun var bara núna 8. des. Svo að maður er bara svona að ,,lenda” eftir að hafa verið að vinna að henni upp á síðkastið. Þetta er rosalega skemmtilegt ferli sem maður leggur allt sitt hjarta og sál í. Núna er ég í smá spennufalli því að keyrslan hefur verið mikil.
Með þessu hefur maður verið að taka þátt í jólasýningu í Portinu og í Listvali og núna akkúrat vinn ég að fleiri verkum sem eru á leiðinni þangað. Með myndlistinni er ég að kenna myndmennt í Hlíðaskóla en þar styttist óðum í jólafrí.
Hef ekki haft neinn tíma til að sinna jólaverkunum. Aðventukransinn er til dæmis enn þá einhversstaðar upp á lofti. En mér er frekar mikið sama um svona dauða hluti. Ég vil bara hitta fólkið mitt um jólin , njóta, upplifa og gera eitthvað skemmtilegt.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Er í tveim vinnum, bæði í myndmenntakennslu og svo að vinna að myndlistinni á vinnustofu minni á Hólmaslóðinni. Við samstarfskona mín erum með sameiginlegt skjal þar sem við skipuleggjum okkur. Við gerum prógramm fyrir hvern tíma sem við kennum svo aftur og aftur með nýjum hópum.
Myndlistin mín hefur ekki svona línulaga skipulag. Þá fær ADHD hliðin mín að blómstra, sem er náttúrulega æði.
En ef það eru sýningar framundan skrifa ég lista hvað ég þarf að gera og hvenær ég þarf að vera búin með hvert atriði. Síðan les ég það auðvitað aldrei þar sem ADHD hausinn á mér man ekki einu sinni hvar ég geymi þessa lista.
En með því að skrifa planið nógu oft nær undirmeðvitundin að sjá um heildarmyndina og láta hlutina ganga upp. Reyni að vera staðföst í því sem ég ætla mér að gera.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég fer að sofa milli klukkan ellefu og tólf. En finnst geggjað að fara upp í svona klukkutíma fyrr og horfa á Netflix. Finnst gaman að horfa á svona heimildarþætti um allskonar. En svo er maður alltaf að ýta á pásu til að gera eitt og annað því það er erfitt að einbeita sér að einu, síminn, stundum undirbúa kennslu, stundum fær maður hugmyndir í myndlistinni og svo framvegis.“