Skoðun

Of­beldi barna­verndar gegn börnum og fjöl­skyldum á Ís­landi í dag

Sara Pálsdóttir skrifar

Í fyrri pistlum mínum hef ég lýst vinnubrögðum barnaverndar á Íslandi og þeirri ómannúðlegu og vanvirðandi meðferð sem skjólstæðingar barnaverndar, bæði börn og fjölskyldur þeirra, eru látin sæta.

Sem lögmaður, sem þegn þessa lands, hafandi fengið ríka innsýn inn í barnaverndarkerfi Íslendinga, er ómögulegt fyrir mig að sitja hjá þegjandi og hljóðalaust. Á minni ævi hef ég aldrei séð og orðið vitni að, eins alvarlegum mannréttindabrotum, ofbeldi, sársauka og þjáningu, eins og ríkir almennt í barnaverndarkerfi Íslendinga. Fjölskyldusundrung, einangrun frá vinum og fjölskyldu, þvingaður aðskilnaður, eftirlit og stjórnun, félagslegt og andlegt ofbeldi gegn börnum, foreldrum, ömmum, öfum, langömmum og langöfum. Pyntingar, ómannúðleg og vanvirðandi meðferð.

Verður þessu ný lýst með rökstuðningi og vísan til laga og mannréttindaákvæða.

Ímyndaðu þér að vera tekinn burt frá heimilinu þínu, frá makanum þínum og börnunum þínum. Þú færð ekki lengur að mæta í vinnuna eða skólann. Þér er komið fyrir á nýju heimili, lengst í burtu, þú færð nýjan maka, ný börn og nýja vinnu. Þú mátt ekki hitta makann þinn né börnin þín, mátt ekki hitta foreldra þína né vini. Þú færð ekki að mæta í gömlu vinnuna eða hitta vinnufélagana. Tvisvar á ári færðu að hitta makann þinn og börnin þín. Þá þarftu að mæta í sérstakt húsnæði, og á meðan á hittingnum stendur er ókunnug manneskja sem fylgist með ykkur og hlustar á allt sem þið segið. Passaðu þig bara á því að segja ekkert rangt. Ekkert sem má ekki segja. Ef þú gerir það þá verður skrifuð neikvæð skýrsla um þig. Þú færð 3 klukkustundir með börnunum þínum, svo þegar þú kveður þá veistu að það munu líða 6 mánuðir þar til þú færð að hitta þau aftur. Samt máttu ekki gráta eða sýna neikvæðar tilfinningar. Ef þú sýnir reiði eða æsir þig yfir óréttlætinu og mannréttindabrotunum þá verður skrifuð neikvæð skýrsla um þig. Þá færðu jafnvel enn sjaldnar að hitta fjölskylduna þína. Þú ferð aftur heim til nýja makans og nýju barnanna með sundurkramið hjarta og köfnunartilfinningu. Jú, með tímanum, með árunum, fer þér að þykja vænt um nýja makann og nýju börnin. Þú ferð að mynda ný tengsl. En sársaukinn, þjáningin og söknuðurinn eftir alvöru makanum þínum og börnunum þínum, er samt óbærilegur. Og hann fer aldrei. Í 15 ár, ertu dæmd/ur í þetta ástand og það er ekkert sem þú getur gert í því.

Hver sem er getur spyrt sjálfan sig, hvort hann myndi upplifa slíka framkomu sem pyntingu? Sem ómannúðlega og vanvirðandi meðferð? Sem alvarlegan og viðvarandi sársauka?

Þegar fjarlægja þarf börn eða barn af heimili vegna veikinda foreldra eða af öðrum ástæðum er börnum iðulega komið fyrir á fósturheimili, í stað þess að vista börn innan stórfjölskyldu, t.d. hjá ömmu og afa. Samkvæmt yfirlýsingu lögfræðings barnaverndar Reykjavíkur, telur barnavernd sig engar skyldur bera til að leitast eftir því að börn séu sett til nákominna.

M.ö.o. gerir barnavernd engan greinarmun á fjölskyldumeðlimum barns annars vegar og hins vegar ókunnugum fósturforeldrum. Slíkt ber ríkan vott um virðingarleysi barnaverndar fyrir tengslum barnanna við fjölskylduna sem varin er í stjórnarskrá og af mannréttindasáttmálum, bæði Evrópu og svo barnasáttmálanum. Barnavernd gengur hins vegar enn lengra en það, og leitast sérstaklega eftir því að vista börnin utan fjölskyldunnar, hjá ókunnugu fólki, oft langt í burtu. Þá eru tengsl barnanna ekki aðeins rofin við foreldra, ömmu og afa, alla stórfjölskylduna, heldur eru börnin rifin af leikskólanum sínum eða skóla, frá starfsfólkinu þar og vinum sínum, frá nærumhverfi og komið fyrir á nýju heimili, með nýja foreldra, nýjan leikskóla, nýtt umhverfi, nýjar reglur. Þá eru börnunum bannað að hitta foreldrana sína eða stórfjölskyldu, nema 1-4 skipti á ári, undir eftirliti ókunnugrar manneskju, sem horfir á allt og hlustar á allt sem fer fram. Passar að ekki sé sagt neitt sem ekki má segja. Í hrörlegu húsnæði á vegum barnaverndar. Og það jafnvel þótt ástandið sem leiddi til þess að börnin voru tekin frá foreldrum sínum sé löngu afstaðið, foreldrarnir eða foreldrið orðið edrú, reglusamt og þráir ekkert meira en að elska barnið sitt og fá að sinna því, þá heldur þessi þvingaði aðskilnaður, eftirlit og einangrun áfram.

Pyntingar, ómannúðleg og vanvirðandi meðferð

Í 68. gr. stjórnarskrá auk 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er lagt bann við pyntingum og ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð.

Í dómum MDE hefur dómstóllinn skilgreint pyntingar sem ,,ómannúðlega meðferð sem er framkvæmd af ásetningi og veldur alvarlegum þjáningum“. (sjá mál Írlands gegn Bretlandi, (dómur 18. janúar 1978). Við mat á því hvort þjáningar séu alvarlegar horfir dómstóllinn m.a. til þess hve lengi hin ómannúðlega meðferð stendur yfir og þau sálrænu áhrif sem hún hefur. Í dómi Hæstaréttar nr. 345/2016 var íslenska ríkið dæmt sekt um að hafa beitt Guðmund Guðlaugsson ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð en hann hafði verið látinn sæta einangrun í 10 daga við óboðlegar aðstæður á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi. Þeirri ómannúðlegu og vanvirðandi meðferð lauk þó eftir 10 daga.

Skilgreining á pyntingum eða ómannúðlegri meðferð felur einnig í sér svokallað falið form pyntingar og ómannúðlegrar meðferðar, þ.e. nauðungar sem veldur alvarlegum sársauka eða þjáningu þess sem fyrir því verður. Yfirvöld beita stundum földum pyntingum og skýla sér á bakvið göfug markmið, t.d. að slík meðferð sé nauðsynleg til verndar hagsmunum barnanna sem yfirvöld eigi að vera að vernda. Slíkt er blekking sem notuð er til að réttlæta ómannúðlega meðferð sem er undir algildu, alþjóðlegu banni og telst skv. lögum aldrei réttlætanleg.

Andlegt og félagslegt ofbeldi barnaverndar gegn börnum og fjölskyldum

Almenn skilgreining á ofbeldi hefur alla jafna verið eftirfarandi:

„Ofbeldi eru athafnir sem valda annarri manneskju sársauka, andlegum eða líkamlegum án tillits til þess hvort um sé að ræða ásetning eða ekki“.

Skilgreiningar á andlegu og félaglegu ofbeldi fela almennt í sér eftirfarandi:

Á heimasíðu 112 (neyðarlínunnar) má t.d. finna skilgreiningar á andlegu ofbeldi og tekin klassísk dæmi þess. Þar er m.a. talið sérstaklega upp sem andlegt ofbeldi:

  • Niðurlæging, eftirlit og stjórnun. Þar segir enn fremur ,,fólk sem beitir ofbeldi afsakar sig oft með því að kenna þolandanum eða öðrum um, eins og áfengi og fyrri sögu, í stað þess að taka ábyrð á eigin hegðun“.
  • „Það gæti verið andlegt ofbeldi ef viðkomandi heldur þér á einhvern hátt frá vinum og fjölskyldu“
  • Heimild: https://www.112.is/ofbeldi/andlegt-ofbeldi

Í greinargerð með 218. gr. almennra hegningarlaga (ákvæði um bann við heimilisofbeldi) er fjallað um mismunandi birtingarmyndir andlegs ofbeldis. Þar kemur m.a. fram að ,,ofbeldi... getur ... birst á fleiri vegu, svo sem í félagslegu ofbeldi þar sem þolandi er einangraður frá fjölskyldu og vinum og jafnvel komið í veg fyrir að hann geti sótt skóla...“

  • Heimild, sjá frumvarp, 4. gr. (https://www.althingi.is/altext/145/s/0547.html)

Á heimasíðu Jafnréttisstofu er andlegt ofbeldi m.a. skilgreint sem:

Á heimasíðu Heilsuveru er fjallað um hvernig andlegu ofbeldi sé beitt til að brjóta manneskju markvisst niður og höggva í sjálfsmynd hennar og sjálfsvirðingu. Það sé m.a. gert með því að niðurlægja og einangra manneskju. Meðal dæma um klassískt andlegt ofbeldi er nefnt:

  • Að einangra viðkomandi frá fjölskyldu og vinum.
  • Fylgjast með/stjórna samskiptum við aðra.

Á heimasíðu Landlæknis, flokkað sem andlegt/félagslegt ofbeldi:

  • Koma í veg fyrir að maður geti verið með vinum og fjölskyldu, koma í veg fyrir að maður ...komist í afmæli.
  • Á heimasíðunni segir einnig, ..sá sem beitir ofbeldinu ber alltaf ábyrgð á því! Sá sem verður fyrir ofbeldinu hefur ekki kallað það yfir sig“.
  • Heimild: https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item18282/Ofbeldi-og-kugun-i-sambondum-og-samskiptum

Allt ofangreint hafa fjölmargir skjólstæðingar mínir, börn þeirra, og aðrir meðlimir fjölskyldunnar upplifað, ítrekað. Umgengni er allt allt of lítil, við niðurlægjandi aðstæður. Svo takmörkuð umgengni veldur í sjálfu sér, viðvarandi þjáningu. Eftirlit og stjórnun er viðhöfð í umgengni. Slíkt felur í sér niðurlægingu og mikinn ótta. Börnin eru einangruð frá foreldrum og stórfjölskyldu og foreldrar og ömmur og afar einangraðir frá börnunum/barnabörnunum sínum. Allt þetta veldur þessum aðilum alvarlegum þjáningum og sársauka og hefur staðið yfir í áraraðir.

Hægt er að spyrja hvaða ömmu sem er, sem fær ekki að hitta barnabarn sitt nema 1 sinni á ári, undir þvinguðum aðstæðum, þar sem haft er eftirlit með, hvort hún upplifi stöðuga þjáningu og alvarlegan sársauka vegna þessarar meðferðar. Það er unnt að spyrja hvaða foreldri sem er, sem fær ekki að hitta barn sitt nema 2-4 sinnum á ári, við þvingaðar aðstæður og hrörlegu húsnæði á vegum barnaverndar með ókunnuga manneskju andandi ofan í hálsmálið á sér, hvort foreldrið upplifi þvingun, niðurlægingu og þjáningu. Ímyndaðu þér ef litlu börnin þín fengju aldrei að hitta ömmu og afa aftur nema 1 skipti á ári við framangreindar aðstæður. Við vitum öll svarið. Ómannúðleg meðferð og mannréttindabrot af þessu tagi eru aldrei réttlætanleg. Þá er ekkert í lögum sem fyrirskipar eða býður slíka meðferð, þvert á móti. Þetta eru venjur sem skapast hafa í framkvæmd barnaverndaryfirvalda og þegar lögin eru skoðuð, á þessi framkvæmd enga lagalega stoð, heldur þverbrýtur öll lög og mannréttindi sem kveða á um friðhelgi fjölskyldunnar.

Þegar þú knúsar börnin þín núna um jólin, þegar stórfjölskyldan hittist í jólaboði, þegar þú gefur barninu þínu jólagjöf, þegar barnið þitt opnar gjafir frá ömmu og afa, knúsaðu extra mikið og enn oftar, vertu þakklátari en nokkru sinni fyrr, og hugsaðu til allra barnanna þarna úti, sem fá ekki að hitta foreldra sína, sem fá ekki að hitta ömmu og afa, hugsaðu til allra foreldranna þarna úti, sem fá ekki að sjá né tala við börnin sín um jólin, hugsaðu til allra sem eru ömmur og afar, langömmur og langafar, frændur og frænkur, sem fá aldrei að sjá barnabörnin sín, fá ekki að baka með þeim piparkökur eða gefa þeim jólagjöf. Hversu sárt þessir einstaklingar eiga um að binda, ávallt, og hvað þá um jólin.

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×