Innlent

Tólf mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnabrot

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Maðurinn flutti efnin til Íslands sem farþegi með flugi frá Varsjá í Póllandi, til Keflavíkurflugvallar og faldi hann efnin í farangri sínum.
Maðurinn flutti efnin til Íslands sem farþegi með flugi frá Varsjá í Póllandi, til Keflavíkurflugvallar og faldi hann efnin í farangri sínum. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt pólskan karlmann í tólf mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa í október síðastliðnum staðið að innflutningi á samtals 750 ml af a-fenetýlamíni. Efnið er náskylt amfetamíni að gerð en hefur ekki sömu verkun.

Maðurinn flutti efnin til Íslands sem farþegi með flugi frá Varsjá í Póllandi, til Keflavíkurflugvallar og faldi hann efnin í farangri sínum.

Fyrir dómi játaði maðurinn afdráttarlaust sök samþykkti kröfu um að efnin yrðu gerð upptæk. Fram kemur í dómnum að maðurinn sé ungur að árum og hafi ekki áður orðið uppvís að refsiverði háttsemi svo kunnugt sé.

Þá segir að ekkert hafi komið fram sem bendi til að maðurinn hafi verið eigandi efnisins né tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þess til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja efnið til landsins gegn greiðslu.  Allt var þetta talið til refsilækkunar.

Hins vegar segir einnig í dómnum að ekki verði horft framhjá því að maðurinn flutti hingað til lands talsvert magn af hættulegu efni sem var ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Þótti því hæfilega ákveðin refsing vera fangelsi í 12 mánuði.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×