Úkraínumenn hafa um nokkuð skeið beðið um þetta kerfi vegna ítrekaðra árása Rússa á orkuver og dreifikerfi ríkisins, auk annarra skotmarka. Betri loftvarnir hafa verið í forgangi bakhjarla Úkraínu en Patriot-kerfi myndi marka mikla getuaukningu fyrir Úkraínumenn.
Samkvæmt heimildum CNN gæti undirbúningi fyrir afhendingu loftvarnarkerfisins lokið í vikunni. Í kjölfar þess þyrftu Biden og Lloyd Austrin, varnarmálaráðherra, veita sendingunni blessun sína. Þá þarf að þjálfa úkraínska hermenn í notkun kerfisins.
Öfugt við önnur skammdrægari loftvarnarkerfi þarf umtalsverðan fjölda manna til að starfrækja Patriot-loftvarnarkerfið. Við hefðbundnar aðstæður tæki það minnst nokkra mánuði að þjálfa þá tugi hermanna sem þarf. Þjálfunin mun fara fram í Þýskalandi.
Ekki vitað hve mörg kerfi verða send
Samkvæmt CNN liggur ekki fyrir hvort til standi að senda fleiri en eitt kerfi til Úkraínu. Eitt slíkt inniheldur ratsjá sem greinir skotmörk á lofti og fylgir þeim eftir. Þessi ratsjá kallast „Phased array tracking radar to intercept on target“ eða PATRIOT. Kerfinu fylgir einnig ljósavél, umfangsmikill tölvubúnaður, stjórnstöð og allt að átta skotpallar með fjórum flugskeytum.
Patriot-kerfið er víðast hvar talið heimsins besta loftvarnarkerfið þegar kemur að því að verjast langdrægum eldflaugum, stýriflaugum og jafnvel flugvélum. Það er vegna þess að kerfið hefur burði til að granda skotmörkum í mikilli fjarlægð, mikilli hæð og á miklum hraða.
Bandaríkjamenn hafa sent nokkur kerfi til ríkja í Austur-Evrópu eftir að Rússar gerðu innrás í Úkraínu og ráðamenn þessara ríkja, eins og Póllands, hafa sent eldri loftvarnarkerfi sín til Úkraínu.
Patriot hefur verið í notkun frá níunda áratug síðustu aldar en hefur gengið í gegnum umfangsmiklar endurbætur og uppfærslur á þeim tíma. Sautján ríki heims nota kerfið til loftvarna þeirra á meðal Bandaríkin, Þýskaland, Ísrael, Japan, Holland, Suður-Kórea, Svíþjóð, Spánn, Taívan og Sádi-Arabía. Pólverjar hafa einnig gert samning um að kaupa nokkrum kerfum frá fyrirtækinu Raytheon og samstarfsaðilum þess.
Áhugasamir geta kynnt sér Patriot-kerfið betur hér á vef Raytheon og í myndböndunum hér að neðan.