Fólk með meðaltekjur eða minna ráði ekki við að greiða mánaðarlega hundrað og þrjátíu þúsund krónur aukalega í vaxtakostnað.
„Þetta eru plástrar á svöðusár,“ segir Ásthildur sem segir aðgerðirnar ekki ráðast að vandanum.
„Sem er náttúrulega fyrst og fremst þessi gríðarlegi hái húsnæðiskostnaður sem er að sliga einstaklinga og heimili og það er ekkert gert til að minnka hann til dæmis með því að koma böndum á vaxtahækkanir og óhóflegar hækkanir á leiguverði. Staðreyndin er nefnilega sú að bæði vaxtabætur og húsnæðisbætur ýta undir hækkanir og eru fé frá ríkinu beint til fjármagnseigenda hvort sem er banka-eða leigusala.“
Ástandið mannanna verk
Ásthildur segir að staðan á húsnæðismarkaði séu mannanna verk.
„Það er hvorki lögmál né bundið í lög að Seðlabankinn þurfi að ráðast gegn verðbólgunni með meðulum sem eru miklu verri en verðbólgan sjálf. Gríðarlegar hækkanir á húsnæðiskostnaði eru helsti vandi heimila og fyrirtækja og það er algjörlega heimatilbúinn og manngerður vandi og ég hefði viljað sjá ríkisstjórnina tryggja heimilin fyrir ágangi bæði leigusala og banka með loforði um að enginn muni missa heimili sitt þrátt fyrir tímabundna greiðsluerfiðleika. Þetta er tímabundið ástað og ríkisstjórninni ber skylda til að verja heimilin.“
Vinnuhópur hjálpi ekki þeim sem verst standa
Hún gefur lítið fyrir að verkalýðshreyfingunni sé boðið að vera með í starfshópi um stöðu leigjenda.
„Hjálpin þarf að berast strax. Það að fara í einhvern vinnuhóp núna er ekki að fara að hjálpa þeim sem eru í mestum vanda og ég vil bara minna á, sem formaður hagsmunasamtaka heimilanna, að við vöruðum við nákvæmlega þessu strax í mars 2020. Það eru næstum því þrjú ár síðan og allt sem við sögðum þá er núna komið fram. Af hverju hefur ríkisstjórnin bara flotið sofandi að feigðarósi og ætlar núna að fara að skoða málin? Það er bara of seint eða það er allavega gríðarlega seint í rassinn gripið þó allt sé betra en ekkert.“