Innlent

Hefur engu við yfirlýsinguna að bæta

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Guðmundur Kristjánsson er eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur og forstjóri Brims.
Guðmundur Kristjánsson er eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur og forstjóri Brims. Vísir/Vilhelm

Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims hf hefur engu við yfirlýsingu, sem send var frá almannatengslafyrirtæki fyrir hönd félagsins, að bæta. Allt hafi komið fram í henni sem snýr að málinu. Kona sjómannsins segist ósátt með „ópersónulega“ yfirlýsingu. 

Saga hjónanna Þórhildar Helgu Þorleifsdóttur og Boga Theodórs Ellertssonar hefur vakið mikla athygli eftir að Þórhildur steig fram á Facebook á laugardag og lýsti því þar að Bogi, sjómaður til margra ára, hafi þurft að berjast fyrir því að fá að fara í land þegar besta vinkona hans var myrt. Bogi sem var á skipi sjávarútvegsfyrirtækisins Brims þurfti síðan að taka annan slag við fyrirtækið til að fá túrinn greiddan þrátt fyrir veikindavottorð frá lækni.

Þórhildur sagðist í viðtali við fréttastofu í gær vona að frásögnin valdi viðhorfsbreytingu í garð sjómanna sem þurfi ekki að harka öll áföll af sér.

Á tíunda tímanum í gærkvöldi barst fréttastofu tilkynning frá almannatengslafyrirtæki fyrir hönd Brims þar sem segir að félaginu þyki miður hvernig mál fyrrum starfsmanns félagsins hafi þróast. Brim harmi að verkferlar félagsins hafi brugðist í málinu. Mikilvægt sé að félagið sýni starfsfólki og aðstandendum þess samúð og skilning við eins erfiðar aðstæður og komu upp í tilviki Boga. Félagið muni endurskoða verkferla og viðbrögð við erfiðum áföllum starfsfólks en að öðru leyti muni Brim ekki tjá sig um máleni einstakra starfsmanna félagsins.

Í fréttinni hér að neðan má lesa yfirlýsinguna. Hvergi kemur fram hvaða verkferlar brugðust, hver beri ábyrgð á þeim né hvernig þeir verði endurskoðaðir.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hefur ekki svarað símtölum fréttastofu um helgina og nú í morgun hafnaði hann viðtali og sagði að í hans huga væri allt fram komið frá félaginu sem viðkemur málinu. 

Yfirlýsingin ópersónuleg

Þórhildur segist í samtali við fréttastofu ósátt með yfirlýsinguna. Í yfirlýsingunni felist engin afsökun. Hún sé eins ópersónuleg og gerist, komandi frá almannatengslafyrirtæki en ekki félaginu sjálfu. Þórhildur segir að Guðmundur hafi hringt í Boga í morgun þar sem sá fyrrnefndi sagðist ekki hafa getað hringt fyrr. Guðmundur hafi beðið Boga afsökunar símleiðis og sagt hann hugrakkan að hafa stigið fram. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×