Lovísa gekk í raðir danska liðsins Ringkøbing í sumar, en eftir stutta veru hjá félaginu var hún leyst undan samningi að eigin ósk í október. Lovísa leggur nú aftur land undir fót og mun leika í norsku úrvalsdeildinni út tímabilið.
Þrátt fyrir ungan aldur hafði Lovísa þar áður verið meðal bestu leikmanna Olís-deildarinnar um árabil. Hún sló í gegn aðeins 16 ára gömul og hefur orðið Íslandsmeistari í þrígang, tvisvar með Gróttu og einu sinni með Val.
Tertnes hefur ekki farið vel af stað í norsku úrvalsdeildinni og situr liðið í neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig eftir átta leiki. Lovísa fær því það verkefni að aðstoða liðið við að halda sæti sínu í deild þeirra bestu.