Innlent

Um 3.500 flóttamenn komnir til landsins

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem skrifaði nýlega undir samning fyrir hönd ríkisins um móttöku flóttamanna í Sveitarfélaginu Árborg.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem skrifaði nýlega undir samning fyrir hönd ríkisins um móttöku flóttamanna í Sveitarfélaginu Árborg. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Vonast til að fleiri sveitarfélög geri samning við ríkið um móttöku flóttamanna, ekki síst stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, sem hafa ekki enn þá komið að verkefninu. Nú erum komnir um 3.500 flóttamenn til landsins.

Nokkur sveitarfélög hafa nú þegar skrifað undir samkomulag við ríkið um móttöku flóttamanna, meðal annars Sveitarfélagið Árborg og Reykjavíkurborg . Það vantar þó að fleiri sveitarfélög taki þátt. Akureyrarbær mun væntanlega skrifa undir samning á næstunni og þá er verið að ganga frá samningum við Reykjanesbæ og Hafnarfjarðarbæ.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumarkaðsráðherra.

„Já, sveitarfélögin eru að týnast inn eitt og eitt og ég vonast til að þau verði enn þá fleiri á næstu misserum og þá er maður ekki síst að líta til stórra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem eru ekki enn þá inn í þessu en að sjálfsögðu út um allt land,” segir Guðmundur Ingi.

Hvað er margt fólk komið til landsins núna og hvað eigum við von á miklum hópi í viðbót, veistu það?

„Það er komið yfir þrjú þúsund manns í ár, reyndar nær þrjú þúsund og fimm hundruð og við gætum átt von á að þetta væri nálægt fjögur þúsund.”

Guðmundur Ingi hvetur sveitarfélög til að taka þátt í verkefninu, það sé mjög brýnt.

„Já, ég bara hvet sveitarfélög til að koma inn í samræmda móttöku flóttafólks vegna þess að þar er ríkið að setja fjármagn til að aðstoða sveitarfélögin við lögbundin verkefni sín og þetta er gríðarlega mikilvægt til þess að koma fólki fljótt og vel inn í íslenskt samfélag þannig að þau geti farið að sjá fyrir sér sjálf og taka þátt í samfélaginu. Og við getum líka notið góðs af þeim mannauði, sem er að koma með því fólki, sem að hingað sækir,” segir Guðmundur Ingi.

Guðmundur Ingi hvetur sveitarfélög landsins til að taka þátt í verkefninu.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×