Fótbolti

Sigur Króatíu sá næst óvæntasti í sögu útsláttarkeppni HM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Króatar höfðu ærna ástæðu til að fagna í gær.
Króatar höfðu ærna ástæðu til að fagna í gær. Etsuo Hara/Getty Images

Heimsmeistaramótið í Katar heldur áfram að koma á óvart og sigur Króatíu gegn Brasilíu í átta liða úrslitum í gær var sá næst óvæntasti í sögu útsláttarkeppni HM frá upphafi.

Króatía og Brasilía áttust við í háspennuleik í átta liða úrslitum í gær þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í vítaspyrnukeppni. Markalaust var að loknum venjulegum leiktíma, en liðin skoruðu sitt markið hvort í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara. Þar voru það Króatarnir sem reyndust sterkari og liðið því á leið í undanúrslit í annað skiptið í röð þar sem Argentína verður mótherjinn.

Tölfræðifyrirtækið Gracenote hefur haldið vel utan um öll gögn á þessu heimsmeistaramóti eins og svo oft áður. Samkvæmt gögnum fyrirtækisins var Brasilía sigurstranglegasta þjóðin áður en mótið hófst.

Nú eru Brassar hins vegar úr leik og þjóðin þarf því að bíða enn lengur eftir sínum sjötta heimsmeistaratitli. Samkvæmt gögnum Gracenote átti Króatía aðeins 30,3 prósent möguleika á því að slá Brasilíu úr leik, sem gerir þetta að næst óvæntustu úrslitum í sögu útsláttarkeppni HM frá upphafi.

Óvæntustu úrslit útsláttarkeppni HM frá upphafi komu árið 1994 þegar Búlgaría sló Þýskaland úr leik, en samkvæmt Gracenote voru aðeins 30 prósent líkur á því að það myndi gerast.

Hér fyrir neðan má sjá samantekt Gracenote á tíu óvæntustu úrslitum útsláttarkeppni HM frá upphafi.

1. Búlgaría 2-1 Þýskaland | Átta liða úrslit | HM 1994 | 30,0 prósent líkur

2. Króatía 1-1 Brasilía (4-2 eftir vítaspyrnukeppni) | Átta liða úrslit | HM 2022 | 30,3 prósent líkur

3. Argentína 1-0 Brasilía | 16-liða úrslit | HM 1990 | 31,1 prósent líkur

4. Sviss 4-2 Þýskaland | 16-liða úrslit | HM 1938 | 31,2 prósent líkur

5. Síle 2-1 Sóvétríkin | Átta liða úrslit | HM 1962 | 32,1 prósent líkur

6. Þýskaland 3-2 Ungverjaland | Úrslit | HM 1954 | 33,2 prósent líkur

7. Þýskaland 7-1 Brasilía | Undanúrslit | HM 2014 | 33,8 prósent líkur

8. Belgía 2-1 Brasilía | Átta liða úrslit | HM 2018 | 33,9 prósent líkur

9. Króatía 3-0 Þýskaland | Átta liða úrslit | HM 1998 | 34,0 prósent líkur

10. Úrúgvæ 1-0 Sóvétríkin | Átta liða úrslit | HM 1970 | 34,5 prósent líkur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×