Körfubolti

Nike slítur samstarfinu vegna hegðunar Irving

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kyrie Irving verður ekki lengur á snærum Nike.
Kyrie Irving verður ekki lengur á snærum Nike. Vísir/Getty

Nike hefur slitið samningi sínum við körfuboltamanninn Kyrie Irving úr Brooklyn Nets einum mánuði eftir að hann auglýsti heimildamynd sem inniheldur gyðingahatur á samfélagsmiðlum.

Íþróttavöruframleiðandinn hafði upprunalega gert hlé á samningi sínum við Irving, sem baðst síðar afsökunar á hegðun sinni. Hann var dæmdur í átta leikja bann af NBA-deildinni vegna auglýsingar sinnar.

Kyrie fór yfir strikið, það er ekki flóknara en það, lét Phil Knight, stofnandi Nike, hafa eftir sér.

Hann hefur látið hafa eftir sér hluti sem við líðum ekki og það er ástæða þess að við bundum enda á samstarfið,

Irving hefur verið í samstarfi við Nike í átta ár og hefur verið með samning upp á 11 milljónir bandaríkjadala árlega frá 2019.

Hann átti fundi með Adam Silvar, yfirmanni NBA-deildarinnar, og háttsettum aðilum úr gyðingasamfélagi New York-borgar á meðan banni hans stóð. Hann hefur þá ásamt félagi sínu, Brooklyn Nets, heitið einni milljón dala til baráttu gegn hatri og ofstæki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×