Erlent

Umfangsmikil mótmæli vegna strangra sóttvarnaraðgerða

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum í Urumqi, þar sem minnst tíu dóu í eldsvoða á fimmtudaginn. Því hefur verið haldið fram að sóttvarnaraðgerðir hafi komið í veg fyrir að hægt væri að bjarga fólkinu.
Frá mótmælum í Urumqi, þar sem minnst tíu dóu í eldsvoða á fimmtudaginn. Því hefur verið haldið fram að sóttvarnaraðgerðir hafi komið í veg fyrir að hægt væri að bjarga fólkinu. AP/Chinatopix

Umfangsmikil mótmæli áttu sér stað víðsvegar um Kína í gærkvöldi og í nótt vegna strangra sóttvarnaraðgerða í Kína. Meðal annars var mótmælt í Sjanghæ þar sem mótmælendur kölluðu eftir því að Xi Jinping, forseti Kína, stigi til hliðar.

Slík mótmæli eru afar sjaldgæf í Kína þar sem fólki getur verið refsað harðlega fyrir þau.

Mótmælin virðast að mestu hafa verið bundin við borgir og háskóla í Kína en þau hafa að miklu leyti verið rekin til nýlegs atviks í Xinjiang í Kína, samkvæmt frétt New York Times. Þar sem íbúar hafa sumir hverjir verið í einangrun í rúmlega hundrað daga.

Minnst tíu manns dóu í borginni Urumqi á fimmtudagskvöld þegar eldur kviknaði í fjölbýlishúsi. Kínverjar halda því fram að sóttvarnaraðgerðir hafi komið í veg fyrir að fólkið hafi komist út úr fjölbýlishúsinu.

Sjá einnig: Tæma hillur verslana af ótta við sóttvarnaraðgerðir

Ráðamenn í Kína hafa ítrekað lýst því yfir á undanförnum dögum að nauðsynlegt sé að framfylgja áfram stefnu stjórnvalda sem kallast „Núll-Covid“. Sú stefna felur í sér umfangsmiklar skimanir og einangrun fyrir alla sem grunaðir eru um að hafa verið nærri smituðum einstaklingum.

Þessi stefna hefur víða leitt til umfangsmikilla og langvarandi lokana í Kína.

Sjá einnig: Xi Jinping með nær einræðisvald eftir nýjustu hrókeringar

Í grein NYT segir að mótmælin gætu mögulega gert yfirvöldum erfiðara að halda þessar stefnu til streitu.

Skjáskot úr myndbandi af mótmælunum í Sjanghæ. Vitni segja lögregluþjóna hafa barið mótmælendur og beitt þá táragasi.AP

Öllu myndefni af mótmælunum er eytt á netinu í Kína þar sem Kommúnistaflokkurinn fer með öll völd. Hér að neðan má sjá myndband frá mótmælunum í Sjanghæ. South China Morning Post segir lögreglu hafa notað piparúða til að stöðva mótmælin.

Fréttakona NPR í Kína segir að ný mótmæli hafi myndast í Sjanghæ þar sem fólk hafi komið saman og kallað eftir því að mótmælendum sem voru handteknir í nótt verði sleppt úr haldi.

Fréttakona BBC segir einnig mótmælt í Peking, höfuðborg Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×