Málið er talið tengjast deilum tveggja hópa í tengslum við hnífaárás á skemmtistaðnum Bankastræti Club í síðustu viku. Á þriðja tug hafa verið handtekin í tengslum við málið og á annan tug sætir gæsluvarðhaldi.
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu sem fer fyrir rannsókn á hnífaárásinni á Bankastræti Club, sagði í samtali við Fréttablaðið að lögregla telji sig vita hvaðan skilaboðin komi.
Þá segir Margeir í samtali við Vísi að skilaboðin séu litin alvarlegum augum. Þau séu þess efnis að lögreglan sé með þau í skoðun. Skilaboðin verða metin og síðan komi lögreglan til með að bregðast við með viðeigandi ráðstafanir.
Ekki verði upplýst um það hvernig eða hvort einhver viðbrögð verði.

Lúkas Geir Ingvarsson, nítján ára piltur og einn þriggja sem slasaðist í hnífsstunguárásinni, gefur lítið fyrir þessi skilaboð í færslu á Instagram. Hann segir fólki að hætta að senda sér skjáskot.
„Þetta er augljóslega kjaftæði. Skil ekki hvernig fólk nennir þessu. Og að fólk myndi virkilega trúa þessu,“ segir Lúkas Geir.
Fréttin var uppfærð með viðbrögðum Margeirs Sveinssonar.