Geimfarinu var skotið af stað þann 16. nóvember eftir ítrekaðar frestanir en um fimmtíu ár eru frá því menn stóðu síðast á yfirborði tunglsins. Artemis-áætlunin snýr að því að koma upp varanlegri viðveru þar á næstu árum.
Geimvísindastofnun Bandaríkjanna er að sýna geimferðina í beinni útsendingu. Fylgjast má með nákvæmri staðsetningu geimfarins, hraða þess og öðrum upplýsingum hér á vef NASA.
Þegar geimfarið verður næst tunglinu, verður það í um 128 kílómetra fjarlægð frá yfirborði þess. Margar myndavélar eru á Orion og má búast við flottum myndum af tunglinu í kjölfar dagsins í dag.
Fylgjast má með útsendingu NASA hér að neðan.
Eins og sjá má á meðfylgjandi skýringarmynd, fer Orion-geimfarið næst tunglinu í fyrstu sporbraut þess og þeirri síðustu, þegar þyngdarkraftur tunglsins verður notaður til að senda það aftur til jarðarinnar.
Í millitíðinni verður geimfarið í um sjötíu þúsund kílómetra fjarlægð frá tunglinu. Heilt yfir á geimferðin að taka tæpa 26 daga.
