Fyrsta skóflustungan var tekin af nýja íbúðakjarnanum á föstudaginn á lóðinni við Nauthaga 2 á Selfossi þar sem íbúðirnar verða byggðar og þjónustukjarninn. Tvö tilboð bárust í verkið, sem var boðið út í alútboði og var samþykkt að semja við fyrirtækið Mineral ehf.
Það er Bergrisin byggðasamlag, sem er verkefni í eigu þrettán sveitarfélaga á Suðurlandi, sem stendur að verkefninu, auk Arnardrangs, sem er félag um sérstakt rekstrarfyrirkomulag , sem miðar að sjálfbærni bygginga og reksturs húsnæðis fyrir fatlað fólk. Einnig kom ráðgjöf frá ýmsum fagaðilum við undirbúning verkefnisins.
Íris Ellertsdóttir er verkefnisstjóri Bergrisans og Arnardrangs.
„Þetta er mjög góð framkvæmd og við erum mjög ánægð með undirbúnings vinnuna, sem hefur farið fram þannig að við erum mjög bjartsýn á framhaldið.Þetta verða sértækt húsnæði, þar að segja með sólarhringsþjónustu fyrir fatlað fólk,“ segir Íris.

Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, bæjarstjóri í Árborg og formaður stjórnar Bergrisan er mjög ánægð með að verkefnið sé að fara af stað.
„Það er búið að vera að bíða eftir þessu en mér skilst að síðasta heimili hafi verið byggt 2007 á okkar svæði, þannig að þetta er bara æðislegt. Það er mikil þörf á svona heimili enda biðlistarnir langir og við þurfum í rauninni bara að fara að huga strax að næsta heimili, það er bara þannig,“ bætir Fjóla Steindóra við.
Nýi byggðakjarninn verður tekin í notkun í janúar 2024 ef allt gengur eftir.
