Tveir fórust þegar flugskeyti féll við þorpið Przewodów í austanverðu Póllandi aðeins örfáum kílómetrum frá landamærunum að Úkraínu síðdegis í dag. Þjóðaröryggisráð Póllands var kallað saman vegna þess og var viðbúnaður hersins aukinn að honum loknum.
Ekki lá fyrir í upphafi hvaðan flugskeytið kom en AP-fréttastofan hafði eftir bandarískum leyniþjónustumanni að það hefði verið rússneskt. Það hafði þó ekki verið staðfest og Rússar höfðu hafnað því.
Nú segir pólska utanríkisráðuneytið að flugskeytið hafi sannarlega verið rússneskt. Zbigniew Rau, utanríkisráðherra, hafi kallað rússneska sendiherrann á sinn fund og krafist tafarlausra og ítarlegra skýringa.
Volodýmýr Selenskíj, forseti Úkraínu, hafði fyrr í kvöld fullyrt að flugskeytið sem lenti í Póllandi hefði verið rússneskt en lagði ekki fram sannanir fyrir staðhæfingunni.
Heimildir Reuters-fréttastofunnar herma að sendiherrar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins komi saman til fundar um málið að beiðni Pólverja á morgun. Samkvæmt stofnsáttmála NATO geta ríki farið fram á fund ef þau telja öryggi sínu ógnað. Stofnsáttmálinn skyldar NATO-ríkin einnig til þess að bregðast við ef ráðist er á eitt þeirra.