Þetta kom fram á fundi Surovkin og Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, um klukkan þrjú í dag að íslenskum tíma.
Fregnir höfðu borist af því í morgun að Úkraínumenn hefðu mögulega unnið mikinn sigur gegn Rússum norður af Kherson-borg og að þeir hafi sótt fram í héraðinu úr nokkrum áttum.
Sjá einnig: Sagðir sækja fram úr nokkrum áttum í Kherson
Rússar hafa um nokkurra vikna skeið gefið í skyn að þeir ætli að hörfa frá vesturbakka Dnipro og þar með Kherson-borg, sem er eina héraðshöfuðborgin sem Rússar hafa hernumið frá því innrásin hófst í febrúar.
Hér má sjá myndband frá því í dag þegar Surovkin lagði til við Shoigu að Rússar hörfuðu yfir ána.
Úkraínumenn hófu í sumar gagnsókn gegn Rússum í Kherson en í aðdraganda hennar sendu Rússar sínar reynslumestu herdeildir til héraðsins. Þar hafa þær herdeildir verið á víglínunum síðan og án mikillar hvíldar. Á þessum tíma hafa Úkraínumenn sprengt upp brýr yfir Dnipro og reynt að gera Rússum erfitt að koma birgðum og hergögnum til hersveita sinna á vesturbakkanum.
Hingað til hafa Úkraínumenn sagt að ekkert fararsnið hafi verið á Rússum og hafa ráðamenn í Úkraínu óttast að Rússar hafi ætlað að laða úkraínska hermenn í gildru.
Ef satt reynist er um mikilvægan hernaðarsigur að ræða fyrir Úkraínu og sömuleiðis mikinn táknrænan sigur.
Ráðgjafi Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, segir Úkraínumenn enn ekki sjá að Rússar ætli sér að hörfa án átaka um Kherson. Rússar séu enn að byggja upp varnir í borginni og hafi frekari liðsauka tilbúinn.
Fáar brýr í boði
Gera má ráð fyrir að undanhaldið muni taka nokkra daga og að Úkraínumenn muni reyna að ráðast á hersveitir Rússa og breyta skipulögðu undanhaldi í almennan flótta, sambærilegt því sem gerðist í Kharkví-héraði fyrr í haust.
Örfáar brýr yfir Dnipro eru enn uppistandandi en Rússar hafa verið að notast við flotbrýr og ferjur til að ferja birgðir og liðsauka á vesturbakkann. Úkraínumenn hafa notað stórskotalið og HIMARS-eldflaugakerfi til að gera þessa flutninga erfiða.
Það er því óljóst hversu auðvelt það verður fyrir Rússa að flytja hersveitir sínar og þungavopn yfir Dnipro.
Sjá má grófa mynd af stöðunni í Kherson-héraði á meðfylgjandi korti hugveitunnar Institute for the study of war frá því í gær.
Leppstjóri dó í bílslysi
Samhliða fregnum af framsókn Úkraínumanna í Kherson í morgun, bárust fregnir af því að Kiril Stremousov, einn af leppstjórum Rússa í héraðinu, hefði dáið í bílslysi. Sá var Úkraínumaður sem var ötull talsmaður Rússa á svæðinu.
Hann sagði í síðustu viku að líklegt væri að rússneskir hermenn myndu flýja frá austurbakkanum og vakti athygli að á myndbandsyfirlýsingu hans mátti sjá að hann var í bíl og að bíllinn virtist fullur af farangri.
Sjá einnig: Fjarlægðu rússneska fánann af ráðhúsinu í Kherson og sagðir líklegir til að hörfa
Stremousov var eftirlýstur af Úkraínumönnum fyrir landráð.
Sex vikur eru síðan Vladimír Pútín, forseti Rússlands, skrifaði undir ólöglega innlimun fjögurra héraða Úkraínu og var Kherson þeirra á meðal.
Brotthvarf Rússa frá vesturbakkanum þýðir að Úkraínumenn geta notað langdrægustu vopn sín til að gera árásir á mikilvæg skotmörk eins og lestarstöðvar og birgðastöðvar á Krímskaga.