Sport

Hljóp með ís­lenska fánann í mark á HM og var á meðal tuttugu bestu í heimi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Andrea Kolbeinsdóttir varð í 19.sæti á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi.
Andrea Kolbeinsdóttir varð í 19.sæti á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi. Vísir/Hulda Margrét

Hlaupakonan Andrea Kolbeinsdóttir náði frábærum árangri í 40 km hlaupi á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi. Hún varð í 19.sæti og hljóp í mark með íslenska fánann á herðunum.

Andrea Kolbeinsdóttir varð í 19.sæti í 40 kílómetra hlaupi á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi sem fram fer í Chiang Mai í Taílandi. Hún kom í mark á tímanum 4:14:08 en sigurvegarinn Den­isa Io­nela Dragom­ir frá Rúm­en­íu hljóp fyrst allra í mark á tímanum 3:49:23.

Andrea kom í mark með íslenska fánann á bakinu en auk Andreu hlupu þau Halldór Hermann Jónsson, Þórólfur Ingi Þórsson, Íris Anna Skúladóttir og Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir einnig í 40 kílómetra hlaupinu.

Andrea hefur getið sér gott orð sem hlaupari síðustu misserin og hefur sett fjölda meta. Hún á fjölmörg virk Íslandsmet í greinum frá 3000 metrum innanhúss upp í hálft maraþon á götu. Andrea setti nokkur brautarmet í sumar eins og upp Esjuna, Snæfellsjökulshlaupið, Dyrfjallahlaupið, Súlur Vertical, Fimmvörðuhálshlaupið og svo auðvitað Laugaveginn.

Eins og áður segir tóku fimm íslenskir hlauparar þátt í 40 kílómetra hlaupinu og þá tóku einnig fimm hlauparar þátt í 80 kílómetra hlaupi sem einnig fór fram í nótt. Þar var hækkunin í hlaupinu hvorki meira né minna en 4800 metrar en Þorbergur Ingi Jónsson kom fyrstur Íslendinga í mark á tímanum 8 klukkutímar og 45 mínútur.

Sigurvegari í 80 kílómetra hlaupinu var Banda­ríkjamaður­inn Adam Peterm­an á tím­an­um 7:15:53.

Auk Þorbergs hlupu þau Elísabet Margeirsdóttir, Rannveig Oddsdóttir, Sigurjón Ernir Sturluson og Þorsteinn Roy Jóhannsson áttatíu kílómetra.


Tengdar fréttir

Drekkur Monster orkudrykk fyrir Laugavegshlaupið

Andrea Kolbeinsdóttur hefur verið að slá í gegn í hlaupaheiminum þrátt fyrir ungan aldur. Hún er 23 ára læknisfræðinemi og vann öll hlaup sem hún keppti í síðasta árið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×