Dagur skoraði raunar þrennu í leiknum, í 5-2 sigri Breiðabliks í bráðfjörugum leik. Tvö markanna komu úr aukaspyrnum af nákvæmlega sama stað, við vítateigsboga Valsmanna, og í bæði skiptin skoraði Dagur yfir varnarvegginn og efst í vinstra hornið, framhjá markverðinum öfluga Frederik Schram.
Á opinbera FIFA World Cup Twitter-reikningnum, sem er með yfir 9,8 milljónir fylgjenda, hefur nú verið birt myndband þar sem hægt er að horfa á bæði mörkin í einu, og sjá hversu ótrúlega lík þau eru.
„Nei, þið sjáið ekki tvöfalt. Þessi leikmaður Breiðabliks skoraði úr tveimur alveg eins aukaspyrnum í sama leiknum,“ er skrifað í færslunni með myndbandinu, færslu sem tugir manna hafa dreift og þar á meðal Dagur sjálfur.
Dagur skoraði alls níu mörk í Bestu deildinni í sumar og var meðal annars valinn í úrvalslið mótsins hjá Stúkunni á Stöð 2 Sport, auk þess að verða meðal fimm efstu í vali leikmanna deildarinnar á besta leikmanni tímabilsins.