Mál Guðjóns Valdimarssonar vopnasala hafa verið í deiglunni að undanförnu vegna meints vopnalagabrots, en Agnar Guðjónsson byssusmiður fullyrðir að hann hafi selt ólögleg vopn; hálfsjálfvirka riffla í stórum stíl. Agnar segist hafa breytt rifflum sem komu frá Guðjóni svo þau teljist löglegir.
Málið hefur verið lengi á vitorði þeirra sem höndla með vopn sem og lögreglunnar sem talin er hafa haldið hlífiskildi yfir Guðjóni vegna fjölskyldutengsla hans við ríkislögreglustjóra, áður lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Lögregla vissi af málinu í fjögur ár án þess að aðhafast
Vilhjálmur sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að Sigríður Björk hlyti að íhuga stöðu sína. Þar kom jafnframt fram að lögreglan verst allra frétta og vill engu svara um málið.
Vilhjálmur fylgdi ummælum sínum eftir í grein sem hann birti á Vísi í morgun.
„Það er ætlun lögreglu, hvort sem að það stenst skoðun eða ekki, að þessi vopn hafi meðal annars átt að nota til þess að gera hryðjuverkaárás á lögregluna. Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að ríkislögreglustjóri og embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu bjuggu yfir upplýsingum um þessa vopnasölu í fjögur ár án þess að aðhafast neitt,“ segir Vilhjálmur.
Getuleysi lögreglu algert
Vilhjálmur vísar þar til nýlegs máls, en tveir ungir menn voru handteknir en fram kom það fram á blaðamannafundi sem lögreglan blés til að þeir hefðu í hyggju að fremja hryðjuverk. Skömmu síðar kom fram að þeir hafi meðal annars verið grunaðir um að hafa haft í hyggju að ráðast með vopnum á lögreglumenn á árshátíð.
„Með því er staðfest að dómgreindar- og getuleysi lögreglu til þess rannsaka sakamál á grundvelli upplýsinga sem eru beint fyrir framan nefið á henni er algjört.
Á sama tíma er lögreglan með háværar kröfur um fá að njósna eftirlitslaust um borgarana á grundvelli svokallaðra forvirkra rannsóknarheimilda,“
skrifar Vilhjálmur og spyr: „Er þessum mannskap treystandi til þess?“ Hann svarar sér sjálfur: „Svarið er nei.“