Handbolti

Aron atkvæðamikill þegar Álaborg gerði jafntefli við Kiel

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron skoraði sex mörk í kvöld gegn gömlu félögunum.
Aron skoraði sex mörk í kvöld gegn gömlu félögunum. Álaborg

Aron Pálmarsson skoraði sex mörg fyrir lið Álaborgar þegar liðið gerði jafntefli við Kiel í Meistaradeildinni í handknattleik í kvöld.

Fyrir leikinn í kvöld var Álaborg með sex stig í B-riðli Meistaradeildarinnar eftir þrjá sigra gegn Celje Lasko, Elverum og Pick Szeged. Kiel var hins vegar sæti neðar með tvo sigra í fimm leikjum.

Jafnt var í upphafi leiks en Álaborg náði frumkvæðinu fljótlega og komst þremur mörkum yfir í stöðunni 9-6. Þeir leiddu lengst af í fyrri hálfleik en heimamenn í Kiel skoruðu fjögur af síðustu fimm mörkum fyrri hálfleiks og voru einu marki yfir í leikhléi, staðan þá 17-16.

Síðari hálfleikur þróaðist á svipaðan hátt. Álaborg var skrefinu á undan en Kiel hélt alltaf í við þá. Þegar rétt um tíu mínútur voru eftir komst Kiel síðan yfir í stöðunni 30-29 og tveimur mörkum yfir skömmu síðar. 

En Aron Pálmarsson og félagar gáfust ekki upp. Aron jafnaði í 35-35 þegar réttar tvær mínútur voru eftir en Nikola Bilyk kom Kiel yfir á ný þegar rúm mínúta var eftir. Það var hins vegar Sebastian Barthold sem skoraði síðasta mark leiksins þegar 34 sekúndur voru eftir, lokatölur 36-36.

Aron Pálmarsson skoraði sex mörk fyrir Álaborg í kvöld og var næst markahæstur leikmanna liðsins á eftir Mikkel Hansen sem var markahæstur með sjö mörk. Hjá Kiel skoraði Eric Johansson níu mörk og áðurnefndur Nikola Bilyk sjö. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×