Innherji greindi frá því í dag að Guðlaugur Þór hafi viljað vera fjármálaráðherra gegn því að falla frá framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins. Kollegarnir, Guðlaugur og Bjarni, funduðu í vikunni og á krafa hins fyrrnefnda að vera meðal þess sem kom fram á fundinum. Þetta segir orkumálaráðherra ekki rétt.
Guðlaugur Þór segir að Bjarni hafi lengi vitað af áhyggjum sínum um stöðu mála í flokknum. Þeir félagar hafi hist, bæði í fjármálaráðuneytinu og á heimili Bjarna, og rætt stöðuna sem upp hafi verið komin.
„Um aðrar fullyrðingar í frétt Innherja er það að segja að það er allsendis ósatt að á þessum fundum hafi ég gert einhverjar kröfur til Bjarna Benediktssonar í skiptum fyrir að hætta við formannsframboð,“ segir Guðlaugur Þór í færslu á Facebook.
Guðlaugur Þór og Bjarni Benediktsson munu ræða málin í viðtalsþættinum Pallborðið á Vísi klukkan 14:00 á morgun og líklegt er félagarnir verði inntir svara um efni fundarins.
Vísir og Innherji eru undir hatti Sýnar hf.