Þingmaðurinn deildi í morgun frétt Morgunblaðsins á Facebook þar sem fram sagði í fyrirsögn að meirihluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins styðji Bjarna áfram til formennsku.
„Alltaf jafn leiðinlegt að vera minnt á hvað við erum orðin fá í þingflokknum. Ég hlakka annars til landsfundar. Þar sem almennir flokksmenn leggja kjörnum fulltrúum línuna en ekki öfugt,“ segir Diljá í færslunni.
Guðlaugur Þór Þórðarson tilkynnti í gær að hann hefði ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Hann fer þar gegn Bjarna Benediktssyni sem hefur gegnt embættinu frá 2009 og sækist nú eftir endurkjöri.
Í samtali við Vísi segir Diljá Mist að hún geri þar athugasemdir við það sem hún kalli „ofuráherslu fjölmiðla“ á að þingmenn gefi almennum flokksmönnum línu varðandi það hvað þeir gera á landsfundi. „Landsfundur er risastór samkoma, um tvö þúsund flokksmenn. Þar leggur fólkið í flokknum línurnar.“
Alltaf stutt forystuna
Diljá Mist segist alltaf hafa stutt forystu flokksins og muni gera það áfram.
Hún segir að bæði Bjarni og Guðlaugur Þór séu samflokksmenn sínir og félagar. „Ég styð Sjálfstæðisfólk. En um mína afstöðu þarf enginn að efast. Við þingmenn eigum þó að virða það að valið er í höndum landsfundarfulltrúa.“
Diljá Mist tók sæti á þingi árið 2021. Áður en hún tók sæti á þingi gegndi hún starfi aðstoðarmanns Guðlaugs Þórs þegar hann var utanríkisráðherra.