„Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, haldinn á Selfossi 23.-25. október 2015, leggst eindregið gegn hvalveiðum við Íslandsstrendur“. Úr landsfundarályktunum Vinstri grænna 2015.
Völd, en engar efndir loforða
2017 komst VG ekki aðeins í ríkisstjórn, heldur varð formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Í 4 ár réði flokkurinn fyrst bæði fyrir forsætisráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu, og nú, 5. árið, fékk flokkurinn, Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið; matvælaráðuneytið.
Á þessum 5 árum, hefur verið veitt meira af hvölum en oftast eða nokkurn tíma áður, og, þrátt fyrir það, að VG hafi stýrt sjávarútvegsráðuneytinu og farið alfarið með hvalveiðar, frá í fyrra, fóru hvalveiðar fram með óbreyttum og fullum hætti nú í sumar.
Ráðherra bar að stöðva veiðarnar
2009 setti Jón Bjarnason, þá sjávarútvegsráðherra, reglugerð nr. 489/2009, sem kvað á um það, að verka skyldi hval undir þaki, í lokuðu rými, til að tryggja hreinlæti við vinnslu og matvælaöryggi, en frá 1949 hafði þessi verkun farið fram undir berum himni.
Þrátt fyrir það ríkidæmi, sem Hvalur hf byggði upp á síðustu öld, tímdi fyrirtækið aldrei að fjárfesta í vinnsluhúsi fyrir hvalina. Hefði þessi reglugerð Jóns Bjarnasonar því átt að stöðva veiðar og vinnslu Hvals.
Hvalur virti hins vegar þessa reglugerð að vettugi í 8 ár, sýndi bara Matvælastofnun, sem átti að fylgja reglugerðinni eftir, fingurinn; verkaði áfram hval, eins og gert var 70 árum áður.
2017 varð Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra, og var þeim nöfnunum, Kristjáni Loftssyni í Hval og honum, greinilega vel til vina, því ráðherrann setti stuttu seinna nýja reglugerð, nr. 533/2018, þar sem verkun hvals var aftur leyfð úti, undir berum himni, eins og var 1949.
Einhver hefði kallað þetta dæmigerða íslenzka spillingu.
Svandís hefði, eftir sína valdatöku í sjávarútvegsráðuneytinu, ekki aðeins getað, heldur hefði henni borið, að ógilda spillingarreglugerð Kristjáns Þórs og virkja aftur alvörureglugerð Jóns Bjarnasonar, nr. 489/2009, en þar með hefði Kristján Loftsson neyðst til að hætta hvalveiðum.
Fátækar þjóðir, en fullar virðingar fyrir lífríkinu
Heimsálfurnar Suður-Ameríka og Afríka mynda Suður-Atlantshaf. Frá Íslandi og í það mitt eru 10.000 km. Að vestanverðu eru Brasilía, Úrúgvæ og Argentína, og, að austanverðu, Afríkumegin, eru það Gabon, Angóla, Namibía og Suður-Afríka. Sjö strandþjóðir.
Á síðustu öld murkuðu gráðugir og grimmir hvalveiðimenn lífið úr 2,9 milljónum hvala. Voru 71% þeirra drepnir í Suður-Atlantshafi.
Þrátt fyrir fátækt og mikla matvælaþörf í þessum ríkjum, ákváðu þau, að láta það ganga fyrir, að mynda griðasvæði fyrir hvali í þessu sama hafi og fjöldaslátrunin hafði átt sér stað, af þeirri hugsun og hugsjón, að við verðum að reyna að endurreisa lífríki jarðar, sem við höfum gengið svo heiftarlega á.
Þegar lýðræðið er fótum troðið
Frá síðustu aldamótum hafa strandþjóðirnar sjö þannig barizt fyrir griðasvæðinu, án árangurs, þó að allan tímann hafi verið mikill meirihluti innan ráðsins fyrir griðasvæðinu, en hvalveiðiríki, með Íslendinga framarlega eða fremst í flokki, 10.000-15.000 km í burtu, hafa með lævísi og brögðum hindrað framgang vilja meirihlutans.
Nú, á dögunum, á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Portoroz/Slóveníu, endurtók þessi ljóti leikur sig. Íslenzka sendinefndin, sem Svandís Svavarsdóttir skipaði, ásamt með 14 öðrum sendinefndum, mest örríkja, sem flestir hafa sjaldan heyrt eða séð, svo og ríkja, sem eru víðsfjarri Suður-Atlantshafi, gengu af fundi til að fyrirbyggja, að hægt væri að greiða atkvæði um málið.
Við svona atkvæðagreiðslu þarf helmingur aðildarríkja að vera viðstaddur, til að fundurinn sé ályktunarhæfur. Með því að ganga af fundi, komu þessi 15 ríki því í veg fyrir að hægt væri að taka málið til atkvæðagreiðslu.
Löðurmannlegt framferði – rangfærslur ráðherra
Löðurmannlegt framferði sendinefndar Íslands það, og svo leyfir matvælaráðherra sér, að tilkynna fjölmiðlum, að íslenzka sendinefndin hafi gengið af fundi, til að forða ólýðræðislegri atkvæðagreiðslu, því ýms aðildarríki hefðu ekki mætt til fundarins.
Afskæmdur sannleikur það, því mikið voru þetta ríki, sem töldu griðasvæði illt og óþarft, eins og Íslendingar. Sá íslenzka sendinefndin því hættu á, að griðasvæðið yrði samþykkt, og gaf Svandís, að eigin sögn, þá fyrirmæli um, að atkvæðagreiðslu skyldi spillt.
Til viðbótar kemur, að íslenzka sendinefndin hefur leikið þennan ljóta leik áður, þegar hún óttaðist, að griðasvæðið yrði samþykkt, t.a.m. 2011.
2012 studdu 38 ríki tillöguna um griðasvæði, gegn 21 ríki. 2018 studdu 39 ríki tillöguna, gegn 25. Hér hefur því minnihluti ríkja, mikið undir forystu Íslands, beitt meirihlutann yfirgangi og ofbeldi um áratuga skeið. Hafa grunsemdir um mútur verið uppi.
Er því með ólíkindum, að matvælaráðherra skuli leyfa sér að halda því fram, að Ísland sé að reyna að koma í veg fyrir ólýðræðisleg vinnubrögð.
Rúsínan í pylsuendanum er svo sú, að Svandís Svavarsdóttir, VG, skipað alræmdasta hvaladrápara heims, Kristján Loftsson, í íslenzku sendinefndina.
Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni.