Sport

Hóta Rússum vegna leyndar yfir máli Valievu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vladímír Pútín tók á móti Kamilu Valievu með pompi og prakt eftir Vetrarólympíuleikana í Peking.
Vladímír Pútín tók á móti Kamilu Valievu með pompi og prakt eftir Vetrarólympíuleikana í Peking. getty/Contributor

Alþjóða lyfjaeftirlitið, Wada, hefur áhyggjur af töfum á rannsókn á máli rússnesku skautakonunnar Kamilu Valievu.

Mikla athygli vakti þegar hún féll á lyfjaprófi fyrir Vetrarólympíuleikana í Peking fyrr á þessu ári. Hún fékk samt að keppa en stóð ekki undir þeim miklu væntingum sem til hennar voru gerðar.

Í síðustu viku sagðist rússneska lyfjaeftirlitið, Rusada, ekki ætla að gera niðurstöður rannsóknar sinnar á máli Valievu opinberar. Wada er ekki sátt með það og að sögn Witold Banka, forseta Wada, er eftirlitið tilbúið að kæra Rusada og fara með málið fyrir Íþróttadómstólinn, CAS.

Framkvæmdastjóri bandaríska lyfjaeftirlitsins, Travis Tygart, hefur einnig gagnrýnt þá ákvörðun Rusada að opinbera ekki niðurstöður rannsóknarinnar á máli Valievu.

Hún varð fyrst kvenna til að framkvæma fjórfaldan öxul í liðakeppninni á Vetrarólympíuleikunum. Skömmu fyrir verðlaunaafhendinguna kom í ljós að Valieva hefði fallið á lyfjaprófi í desember. Hjartalyfið trimetazidine greindist í sýni hennar.

 Valieva fékk leyfi til að keppa í einstaklingskeppninni en komst ekki á verðlaunapall og varð að gera sér 4. sætið að góðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×