Erlent

Óttast dreifingu ebólu í höfuðborg Úganda

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Úgandskur læknir setur á sig hlífðarbúnað áður en hann sinnir sjúklingi með ebólu.
Úgandskur læknir setur á sig hlífðarbúnað áður en hann sinnir sjúklingi með ebólu. Hajarah Nalwadda/AP

Sex börn úr sömu fjölskyldunni í Kampala, höfuðborg Úganda, hafa greinst með ebólu. Yfirvöld óttast að útbreiðslan verði hraðari nú þegar hún hefur náð til þéttbýlli svæða landsins.

Þetta hefur breska ríkisútvarpið eftir heilbrigðisyfirvöldum í Úganda. Svokallað Súdan-afbrigði ebólu, sem ekkert bóluefni er til við, hefur dreifst um Úganda síðan í september, og hafa stjórnvöld haft miklar áhyggjur af því að afbrigðið dreifist til höfuðborgarinnar. Áhyggjurnar snúa helst að því að veiran myndi dreifast hraðar milli fólks í þéttbýli borgarinnar.

Börnin sex smituðust eftir að ættingi þeirra kom í heimsókn á heimilið. Sá hafði komið smitaður frá svæði í Úganda þar sem staða faraldursins er hvað verst. Viðkomandi er nú látinn.

Frá því að dreifing afbrigðisins hófst hafa 109 greinst með það í Úganda og 30 látist í landinu, þar af 15 í Kampala. 

Dreifing í þéttbýli ekki góðar fréttir

Samkvæmt BBC telja margir að forsetinn Yoweri Museveni hafi verið of seinn að bregðast við eftir að vísbendingar um útbreiðslu ebólu í landinu komu fram. 

Jane Ruth Aceng, heilbrigðisráðherra Úganda, segist hafa vaxandi áhyggjur af aukinni útbreiðslu ebólu í höfuðborginni og á öðrum þéttbýlum stöðum. Talið er að ef veiran nær mikilli útbreiðslu í borginni muni það auka líkurnar á dreifingu til annarra landa til muna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×