Viðskipti innlent

Ás­­mundur Einar Daða­­son skipar þrjá nýja skrif­­stofu­­stjóra

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Ásmundur Einar Daðason, ráðherra hefur skipað þrjá skrifstofustjóra, þau Önnu Tryggvadóttur (t.v.), Árna Jón Árnason og Þorstein Hjartarson.
Ásmundur Einar Daðason, ráðherra hefur skipað þrjá skrifstofustjóra, þau Önnu Tryggvadóttur (t.v.), Árna Jón Árnason og Þorstein Hjartarson. Stöð 2/Arnar Halldórsson, vefsíða stjórnarráðsins

Þrír nýir skrifstofustjórar hafa verið skipaðir hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Ráðherra, Ásmundur Einar Daðason hefur skipað Önnu Tryggvadóttur, Árna Jón Árnason og Þorstein Hjartarson í embættin samkvæmt nýju skipulagi ráðuneytisins. Skipað er í embættin til fimm ára. Ekki var skipað í embætti skrifstofustjóra gæða- og eftirlitsmála vegna fækkunar skrifstofa hjá ráðuneytinu.

Anna er sögð hafa starfað innan hins opinbera allan sinn starfsferil. Greint er frá því á vef stjórnarráðsins að hún sé með B.A og Mag. Jur. próf í lögfræði og hafi meðal annars starfað innan Stjórnarráðs Íslands og sem staðgengill skrifstofustjóra. Ásamt því hafi hún verið yfirlögfræðingur hjá félagsmálaráðuneytinu og mennta- og barnamálaráðuneytinu. Einnig hafi hún starfað sem stundakennari hjá lagadeildum Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Anna er skipuð í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu ráðuneytisstjóra og innri þjónustu. 

Árni er skipaður í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu greiningar og fjármála. Hann er sagður hafa starfað sjálfstætt við fjármálaráðgjöf frá árinu 2016 og sé hann þá með M.Sc. gráðu í fjármálum með sérstaka áherslu á fjárfestingar frá University of Strathclyde í Glasgow. Hann hafi einnig verið einn meðeigenda Deloitte á árunum 2006 til 2016 og starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands.

Þorsteinn er sagður hafa starfað sem framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og síðar sem fræðslustjóri Árborgar frá 2011 til 2019. Einnig hafi hann starfað sem sviðsstjóri fjölskyldusviðs Árborgar frá árinu 2019 en hann sé með M.Ed. gráðu í stjórnun menntastofnana frá Kennaraháskóla Íslands. Þorsteinn hafi einnig íþróttakennarapróf frá Íþróttakennaraskóla Íslands en hann hefur nú verið skipaður í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stefnumótunar og innleiðingar.

Frekari upplýsingar um skipunina og nýju skrifstofustjórana má sjá á vef stjórnarráðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×