Körfubolti

Skrifar undir hjá KR eftir að Njarðvíkingar riftu samningi hans

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Philip Jalalpoor er genginn í raðir KR-inga eftir stutta dvöl í Njarðvík.
Philip Jalalpoor er genginn í raðir KR-inga eftir stutta dvöl í Njarðvík. Vísir/Bára Dröfn

Körfuknattleiksdeild KR hefur samið við þýsk-íranska körfuknattleiksmanninn Philip Jalalpoor um að leika með liðinu í Subway-deild karla, tæpri viku eftir að leikmaðurinn var leystur undan samningi sínum hjá Njarðvík.

Jalalpoor gekk í raðir Njarðvíkinga í ágúst síðastliðnum, en náði aðeins að leika einn leik með liðinu í Subway-deild karla. Hann lék með liðinu í óvæntu tapi gegn ÍR í 1. umferð tímabilsins, en var ekki í leikmannahóp liðsins nokkrum dögum síðar er Njarðvík vann sigur gegn Hetti. Stuttu eftir leikinn birtist svo tilkynning frá Njarðvíkingum þess efnis að Jalalpoor hafi verið leystur undan samningi sínum.

Fyrr í kvöld birtist svo tilkynning á samfélagsmiðlum KR-inga þar sem kemur fram að leikmaðurinn hafi skrifað undir samning við liðið. Í tilkynningunni kemur þó fram að aðeins sé um tímabundinn saming að ræða, allavega fyrst um sinn, á meðan lykilmenn liðsins jafna sig á meiðslum.

Jalalpoor er 29 ára gamall bakvörður sem er með þýskt og íranskt vegabréf. Hann hefur leikið með íranska landsliðinu og var í leikmannahóp liðsins á seinustu Ólympíuleikum þar sem hann var með 1,0 stig og 1,0 stoðsendingu á 12,9 mínútum að meðaltali í þremur leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×