Innlent

Læknafélagið segir ástandið „óboðlegt og hættulegt“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Læknafélagið kallar einnig eftir eflingu heilbrigðiskerfisins á landsbyggðinni.
Læknafélagið kallar einnig eftir eflingu heilbrigðiskerfisins á landsbyggðinni. Getty

Læknafélag Íslands segir ástandið í heilbrigðiskerfinu „óboðlegt og hættulegt“ en aðalfundur félagsins samþykkti um helgina ákall til ríkisstjórnarinnar „vegna ríkjandi neyðarástands í heilbrigðiskerfinu“.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.

Þar segir að félagið krefjist þess að tafarlaust verði ráðist í aðgerðir til að „tryggja bestu mögulegu heilsu og öryggi sjúklinga, persónuvernd þeirra og mannlega reisn“, eins og það er orðað. Þá segist Læknafélagið reiðubúið til að vinna með stjórnvöldum að því að leysa vandann.

Á fundinum samþykkti félagið einnig nokkrar ályktanir, meðal annars um áskorun til stjórnvalda um að ganga til samninga við sjálfstætt starfandi sérgreinalækna og áskorun um að ráðast í markvissar aðgerðir vegna vísbendinga um aukinn heilsubrest lækna og vaxandi brotthvarf þeirra af vinnumarkaði. 

Var meðal annars vísað til niðurstaða heilbrigðiskannanna heilbrigðisstétta en opinberar tölur seinustu ára sýni auknar veikindafjarvistir og umtalsverða fjölgun umsókna í starfsendurhæfingar- og veikindasjóð.

„Mikilvægt sé að sporna við þessari óheillaþróun og draga úr álagi, s.s. með auknum stuðningsúrræðum, úrbótum á starfsumhverfi, fjölgun stöðugilda og styttingu vinnuvikunnar. Starfslýsing þurfi að liggja fyrir í ráðningarsamningi og hún þurfi að endurspegla raunhæft umfang verkefna lækna sem og að hámarksfjöldi sjúklinga í umsjón hvers læknis sé skilgreindur,“ segir í tilkynningu á vef félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×