Innlent

Játaði að hafa ætlað að bana karlmanni með þrívíddarbyssu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi árásarinnar aðfaranótt sunnudagsins 13. febrúar.
Frá vettvangi árásarinnar aðfaranótt sunnudagsins 13. febrúar. Aðsend

Ingólfur Kjartansson, tvítugur karlmaður, gekkst í morgun við því að hafa ætlað að bana karlmanni í bílastæðahúsi við Bergstaðastræti í febrúar. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hádegi og krafðist saksóknari tíu ára dóms.

Þetta kemur fram í frétt Mbl.is. Þar segir að Ingólfur, sem var nýlega laus úr fangelsi á skilorði þegar árásin átti sér stað, hafi viðurkennt brot sín og sagst iðrast mjög. Brotaþoli í málinu hlaut lífshættulega áverka en eitt af fjórum skotum sem Ingólfur hleypti af fóru í gegnum brjósthol hans.

Réttargæslumaður fer fram á 3,5 milljónir króna í bætur fyrir hönd brotaþola. Hann benti á að Ingólfur hefði boðað brotaþola til fundar við sig, mætt með þrívíddarprentaða byssu og hleypt af án þess að mæla nokkur orð við brotaþola.

Ingólfur var að sögn verjanda í mikilli neyslu á þessum tíma auk þess að vera greindur með áráttu- og þráhyggjuröskun. Þá hefði brotaþoli ráðist á Ingólf þegar þeir voru í fangelsi. Ingólfur hafi því haft ástæðu til að óttast brotaþola.

Ingólfur sagði þá brotaþola vera vini í dag.

„Ég þakka guði og öllum sem tóku þátt í því að halda honum á lífi,“ sagði Ingólfur í dómsal samkvæmt frétt Mbl.is.

Fjallað var um skotárásina í fréttum Stöðvar 2 í febrúar þar sem sjá mátti för eftir byssukúlur á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×