Pepp Ísland eru grasrótarsamtök gegn fátækt.
Eftir lokun kaffistofunnar í Arnarbakka, þar sem starfsemi Pepp-Ísland er til húsa, ætlar fólk á vegum samtakanna að fara út á meðal fólksins og dreifa kortum í tilefni alþjóðlegs baráttudags gegn fátækt.
„Við erum með kort með slagorðum á til að minna á okkur og minna á daginn okkar. Við ætlum að fara út á meðal fólks og óska því til hamingju með daginn og afhenda kort,“ segir Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, samhæfingarstjóri Pepp Íslands. Á einu kortinu segir „óbærilegur kostnaður tilverunnar“ sem vísar til verðbólguástandsins sem kemur verst niður á fólki í fátækt.
„Hinn óbærilegi kostnaður tilverunnar er staðreynd þar sem allar nauðsynjar fara hækkandi.“
Ásta hefur sérstakar áhyggjur af einstæðum foreldrum á örorkulífeyri - staðan sé enn hörmuleg þrátt fyrir þrotlausa baráttu síðustu ára.
„Staðan ennþá sú að einstæðir foreldrar á örorkulífeyri ná bara ekki endum saman. Það er ekki hægt að lifa viðunandi fjölskyldulífi á slíkum tekjum.“
Ásta er hugsi yfir aðgerðaleysi stjórnvalda.
„Maður hefði haldið að það ætti að vera tiltölulega auðvelt að nálgast þessa ákveðnu foreldra á einhvern hátt. Ég veit ekki hvort það sé ekki vilji fyrir því eða hvað það er sem veldur eða hvort menn hafi bara ekki áttað sig á því hversu ofboðslega illa þessi hópur stendur.“
Ásta vill að almenningur tileinki sér nýtt og breytt viðhorf í garð fólks í fátækt og átti sig á því að hin bága staða sé ekki fólkinu sjálfu að kenna.
„Fátækt er fyrst og fremst aðstæðurnar sem þú býrð við og þegar þú hefur búið lengi við slíkar aðstæður þá ertu ekki fær um að standa upp og breyta þínum aðstæðum sjálfur. Ef við getum aðeins hreyft við þessu viðhorfi. Fátækt er yfirleitt afleiðing af ástandi; af aðstæðum. Við verðum að reyna að koma auga á manneskjuna og gefa eftir smá rými í samfélaginu.“