Körfubolti

„Eins og 1-0 sigur í fótbolta“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Maté Dalmay hefur stýrt Haukum til sigurs í fyrstu tveimur leikjum sínum sem þjálfari í efstu deild.
Maté Dalmay hefur stýrt Haukum til sigurs í fyrstu tveimur leikjum sínum sem þjálfari í efstu deild. vísir/diego

Maté Dalmay, þjálfari Hauka, var kátur eftir sigur nýliðanna á Þór Þ. í kvöld, 90-84. Honum fannst sínir menn verða full ragir í seinni hálfleik eftir frábæran sóknarleik í þeim fyrri.

„Við vorum það passívir og ragir í sókninni í seinni hálfleik að mér fannst koma mikil ákefð í vörnina hjá okkur,“ sagði Maté í samtali við Vísi í leikslok.

„Það var svo erfitt að skora. En menn rifu sig í gang í vörninni og við kreistum þetta út eins og 1-0 sigur í fótbolta. Það var eins og við ætluðum bara á hanga á forystunni og það gengur aldrei. Þótt því gangi ekki vel skorar hitt liðið alltaf nógu mörg stig. En vörnin var góð.“

Haukar spiluðu ljómandi góðan sóknarleik í fyrri hálfleik þar sem boltinn gekk vel á milli manna og heimamenn hittu vel.

„Við erum án aðalleikstjórnandans okkar [Darwin Davis] en fengum frábært framlag frá varaleikstjórnandanum [Róberti Sigurðarsyni]. Við vorum að spila á mjög fáum mönnum en höfðum þetta,“ sagði Maté.

Hann er að vonum sáttur með byrjunina á tímabilinu enda hafa Haukar unnið báða leiki sína.

„Ég er mjög ánægður og nú þurfum við bara að halda áfram,“ sagði Maté að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×