Erlent

Ó­kyrrð í Kína eftir eins manns mót­mæli

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mótmælin hafa vakið gríðarlega athygli.
Mótmælin hafa vakið gríðarlega athygli. Twitter

Kínversk stjórnvöld hafa undanfarna daga unnið dag og nótt að því að ritskoða umræður á samfélagsmiðlum um mótmæli sem fóru fram í Peking í gær. Mótmælendur hafa krafist þess að Xi Jinping, leiðtoga landsins, verði komið frá völdum en aðeins nokkrir dagar eru í að þjóðþing kommúnistaflokksins fer fram.

Mótmælandi hafði skrifað skilaboð sín stórum stöfum á hvíta borða sem hann hengdi á Sitong brúna í Peking í gær og hafði þar greinilega verið kveiktur eldur sömuleiðis. Myndir og myndbönd af borðunum fóru eins og eldur í sinu um netheima. Mikil umferð er þá undir brúna en hún er í í Haidian hverfinu, sem er fjölfarið. 

„Við viljum mat, ekki PCR próf. Við viljum frelsi, ekki útgöngubann. Við viljum virðingu, ekki lygar. Við viljum umbætur, ekki Menningarbyltingu. Við viljum kjósa, ekki [valinn] leiðtoga. Við viljum vera borgarar, ekki þrælar,“ sagði á einum borðanum. Á öðrum var kallað eftir því að fólk sniðgengi skóla, legði niður störf og að Xi verði komið frá völdum. 

Myndirnar fóru hratt í dreifingu um vestræna samfélagsmiðla en þær voru fljótt fjarlægðar af þeim kínversku. Færslur sem innihéldu orðin „Peking“, „brú“ og „Haidan“ voru fjarlægðar samstundis og lag, sem inniheldur nafn brúarinnar, var fljótt fjarlægt af streymisveitum. 

Á Twitter sögðu sumir að aðgöngum þeirra á kínverska samfélagsmiðlinum WeChat hafi verið lokað eftir að þeir deildu myndum af mótmælunum. 

Mótmælin vöktu gríðarlega athygli í Kína, enda mjög sjaldgæft að fólk mótmæli stjórnvöldum opinberlega. Í morgun voru Kínverjar farnir að ræða atvikið á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu „Ég sá það“. Þar hefur fólk ekki rætt mótmælin berum orðum en vísað til þeirra. Meira en 180 þúsund höfðu tekið þátt í umræðum með notkun myllumerkisins í morgun en því hefur nú verið eytt. 

Margir vísuðu í umræðunum í morgun til lagatexta lagsins Do you hear the people sing? úr söngleiknum Vesalingunum sem varð mjög vinsæll baráttusöngur í Hong Kong árið 2019 og var bannað tímabundið vegna þess.

Margir vísuðu þá til frægra orða Mao Zedong um að lítill neysti geti kveikt mikinn eld. Þá hafa miklar umræður skapast um hver mótmælandinn sé en svo virðist sem hann hafi verið einn á ferð. Tímasetning mótmælanna er þá merkingarþrungin en þjóðþing kommúnistaflokksins fer fram eftir helgi og munu þúsundir flokksmanna koma saman á þinginu fyrir viku af fundarhöldum. Líklegt er talið að Xi verði skipaður leiðtogi flokksins í þriðja sinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×