Innblásturinn er fastur liður hjá Lífinu á Vísi þar sem rætt er við ólíkt fólk um hvað veitir því innblástur í tilverunni og hvaða ráðum þau luma á varðandi andlega heilsu.
Hver ert þú í þínum eigin orðum?
Tveggja stráka mamma sem ætlaði að verða lögfræðingur en fann ástríðuna í óhefðbundinni styrktarþjálfun og mataræðispælingum.
Hvað veitir þér innblástur?
Fólkið í kringum mig sem nær að njóta lífsins þrátt fyrir að það sé brjálað að gera.
Hvað er þitt besta ráð til að næra andlega heilsu?
Félagsleg tengsl eru alltaf mikilvægust þar. Opin samskipti og gæðastundir með maka, börnum, fjölskyldu og vinum er besta meðalið fyrir sálina. Og hreyfing auðvitað líka!
Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?
Vakna um sjö með manninum mínum og strákunum okkar tveimur. Yfirleitt er smá kúr (og smá fíflalæti með) uppi í rúmmi áður en allir fara fram. Maðurinn minn fer með yngri strákinn okkar til dagmömmu og ég og eldri strákurinn röltum saman í leikskólann hans.
Vinnudagurinn minn byrjar um níu og og er til sirka þrjú. Þar inni er tölvuvinna, símtöl og ein til tvær æfingar. Ég sæki yngri strákinn okkar um þrjú og eldri strákinn nær fjögur. Við dúllum okkur aðeins heima eða kíkjum kannski á bókasafn og svo borðum við öll fjögur saman kvöldmat um sex leytið. Strákarnir eru sofnaðir fyrir átta og þá reynum við Finnur að gera eitthvað næs saman tvö og finnum til dót fyrir næsta dag til að auðvelda morguninn eftir.
Uppáhalds lag og af hverju?
Sacrifice og Goodbye Yellow Brick Road með Elton John eru uppáhalds, sérstaklega eftir að ég horfði á myndina Rocketman.
Ég fæ einfaldlega bara ekki leið á þeim og langar alltaf sjálf að vera rokkstjarna uppi á sviði þegar ég hlusta á þau.
Þetta eru lögin sem ég elska að syngja við á rúntinum.
Uppáhalds matur og af hverju?
Góð nautasteik með heimagerðum bernaise, smjörsteiktum lauk og krönsí, íslenskum kartöflum hljómar eins og draumur fyrir mér. Svo er djúsí hamborgari alltaf geggjaður.
Besta ráð sem þú hefur fengið?
Að gleyma mér ekki of mikið á meðan maður er í „pakkanum“ með lítil börn því þessi tími líður svo hratt. Að gleyma því ekki að njóta með börnunum þegar þau eru svona lítil.
Hvað er það skemmtilegasta við lífið?
Að horfa á strákana mína þroskast og verða sínir eigin karakterar.
Maður fær að upplifa lífið svo öðruvísi með börnunum sínum.
Ég hlakka til dæmis ekkert eðlilega mikið til jólanna með þeim.