Erlent

Sögulegar sættir í landamæradeilu Ísraels og Líbanons

Kjartan Kjartansson skrifar
Najib Makati, forsætisráðherra Líbanons (t.h.), tekur við drögum að samkomulaginu úr hendi Eliasar Bou Saab sem fór fyrir líbönsku samninganefndinni.
Najib Makati, forsætisráðherra Líbanons (t.h.), tekur við drögum að samkomulaginu úr hendi Eliasar Bou Saab sem fór fyrir líbönsku samninganefndinni. AP/Dalati Nohra

Yair Lapid, forsætisráðherra Ísraels, segir að sögulegt samkomulag hafi náðst við Líbanon sem bindur enda á áratugalangar deilur ríkjanna um markalínur á sjó á milli nágrannaríkjanna tveggja. Ríkin hafa verið svarnir óvinir um árabil.

Bæði ríki hafa gert tilkall til 860 ferkílómetra svæðis í Miðjarðarhafi en þar er meðal annars að finna gaslindir. Ríkin hafa formlega séð átt í stríði frá stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Þau eiga ekki í formlegu stjórnmálasambandi.

AP-fréttastofan segir að samkomulagið geri líbönskum yfirvöldum kleift að hefja gasvinnslu í Miðjarðarhafi en þau vonast til þess að hún geti bætt bágborna efnahagsstöðu landsins.

Líbönsk stjórnvöld hafa ekki staðfest að samkomulag hafi náðst. Þá segir AP að búist sé við að það muni koma til kasta dómstóla í Ísrael áður en hægt verður að fullgilda það. Búist er við að það verði lagt fyrir starfandi ríkisstjórn Ísraels í vikunni en aðeins nokkrar vikur eru til þingkosninga þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×