Erlent

Ólýsanleg sorg þegar foreldrar sáu börnin sín eftir árásina

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Ættingjar þeirra sem létust í árásinni söfnuðust saman í musteri í bænum Uthai Sawan þar sem þau fengu að sjá börnin. 
Ættingjar þeirra sem létust í árásinni söfnuðust saman í musteri í bænum Uthai Sawan þar sem þau fengu að sjá börnin.  AP/Sakchai Lalit

Fjölskyldur barnanna sem létust í skotárás á leikskóla í Taílandi í gær voru óhuggandi þegar þeir sáu kistur barna sinna í dag. Stjórnmálamenn, þar á meðal forsætisráðherra Taílands, lögðu blóm að leikskólanum og konungshjónin munu heimsækja særða í dag. Af þeim 36 sem létust voru að minnsta kosti 24 börn. 

Fyrrverandi lögreglumaður á fertugsaldri myrti 36, bæði börn og starfsmenn, í leikskóla í norðausturhluta Taílands í gær en hann notaði bæði byssur og hnífa við árásina.

Margir grétu hástöfum og einhverjir féllu í yfirlið við athöfnina í dag.AP/Sakchai Lalit

Foreldrar öskruðu og grétu og sumir féllu í yfirlið þegar þeir fengu að sjá börnin sín eftir að kisturnar voru opnaðar við athöfn í musteri búddista í bænum í morgun. Einhver börn voru með stungusár á andliti, þar á meðal þriggja ára stúlka.

Prayuth Chan-ocha, forsætisráðherra Taílands, var meðal þeirra sem lögðu blóm að dyrum leikskólans í dag og hitti foreldrana í kjölfarið. Flaggað var í hálfa stöng víðs vegar í landinu og skólabörn fóru með bænir fyrir hina látnu.

Prayuth Chan-ocha, forsætisráðherra Taílands, hitti fjölskyldur barnanna í dag. AP/Wason Wanichakorn

Konungurinn Maha Vajiralongkorn og drottningin Suthida munu þá heimsækja spítalana þar sem sjö af hinum tíu sem særðust munu dvelja næstu daga. Þá verður minningarathöfn í almenningsgarði í höfuðborginni Bangkok í dag.

Af þeim sem létust í árásinni voru að minnsta kosti 24 börn, að því er kemur fram í frétt AP, en árásarmaðurinn tók sitt eigið líf eftir árásina eftir að hafa myrt konu sína og barn. Meðal yngstu fórnarlambanna var þriggja ára strákur sem var á hjóli við leikskólann.

Að minnsta kosti 24 börn létust í árásinni. AP/Sakchai Lalit

Börnin voru sofandi þegar árásin átti sér stað en vanalegast voru um sjötíu til áttatíu börn í skólanum. Þau hafi þó verið færri í gær þar sem önninni var lokið hjá eldri börnum auk þess sem mikil rigning á svæðinu kom í veg fyrir að skólarútan væri í notkun.

Fullyrti starfsmaður leikskólans að fleiri hefðu látist undir venjulegum kringumstæðum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu þar í landi hafði hinn 34 ára Panya Kamrap verið rekinn fyrr á árinu vegna fíkniefnamáls og átti að mæta fyrir dóm í dag. Sonur hans hafði verið í leikskólanum en samkvæmt starfsmanni þar hafði hann ekki mætt í um mánuð.

Árásarmaðurinn, hinn 34 ára Panya Kamrap, var fyrrverandi lögreglumaður. AP

Frans páfi vottaði þeim virðingu sem höfðu orðið fyrir „ólýsanlegu ofbeldi“ og Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, og fleiri þjóðarleiðtogar fordæmdu árásina.

Skotárásir eru ekki algengar í Taílandi. Nýlegasta dæmið um svo mannskæða árás er frá árinu 2020 þegar 21 manns létu lífið eftir skotárás hermanns í borginni Nakhon Ratchasima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×