Erlent

Að minnsta kosti 34 látnir eftir skot­á­rás á leik­skóla

Bjarki Sigurðsson skrifar
Leikskólinn er staðsettur í Nong Bua Lamphu-héraði.
Leikskólinn er staðsettur í Nong Bua Lamphu-héraði. Google Maps

Að minnsta kosti 34 hafa látið lífið eftir skotárás á leikskóla í norðausturhluta Taílands. Bæði börn og fullorðnir eru meðal látnu.

Samkvæmt fréttaveitunni Reuters er grunaður skotmaður fyrrverandi lögreglumaður. Tælenskir fjölmiðlar fullyrða að maðurinn hafi skotið eiginkonu sína til bana og síðan tekið eigið líf eftir árásina. Lögreglan hefur ekki staðfest þær fregnir.

Talið er að maðurinn hafi bæðið skotið og stungið börn og starfsmenn leikskólans en ekki er vitað um tilefni árásarinnar. Að sögn breska ríkisútvarpsins hafa að minnsta kosti 23 börn látið lífið og átta fullorðnir. Árásin var gerð þegar börnin voru sofandi.

Skotárásir eru alls ekki algengar í Taílandi. Nýlegasta dæmið og svo mannskæða árás er frá árinu 2020 þegar 21 manns létu lífið eftir skotárás hermanns í borginni Nakhon Ratchasima. 

Uppfært klukkan 8:40

Lögreglan hefur lýst eftir grunuðum skotmanni. Samkvæmt lögreglunni í Bangkok heitir hann Panyua Kamrab og er 34 ára gamall. 

Uppfært klukkan 10:21

Maðurinn skaut fjölskyldu sína til bana og tók að lokum eigið líf. Helstu erlendu fjölmiðlar heims greina frá því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×