Erlent

Kadyrov kallar eftir herlögum og notkun kjarnorkuvopna

Samúel Karl Ólason skrifar
Ramzan Kadyrov, einræðisherra Téténíu, segir Rússa þurfa að beita öllum sínum vopnum til að stöðva Úkraínumenn í austurhluta Úkraínu.
Ramzan Kadyrov, einræðisherra Téténíu, segir Rússa þurfa að beita öllum sínum vopnum til að stöðva Úkraínumenn í austurhluta Úkraínu. Getty/Mikhail Svetlov

Ramsan Kadyrov, einræðisherra Téténíu, birti í dag langan pistil þar sem hann gagnrýnir leiðtoga rússneska hersins harðlega vegna undanhaldsins frá Lyman í norðanverðu Donetsk-héraði. Meðal annars kallar hann eftir því að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, setji á herlög á landamærasvæði Rússlands við Úkraínu og beiti kjarnorkuvopnum gegn Úkraínumönnum.

Kadyrov gagnrýnir herforingjann Alexander Lapin, sem hann segir að hafi leitt varnir Rússa við Lyman. Kadyrov segist hafa gert forsvarsmönnum hersins ljóst að aðstæður við Lyman hafi ekki verið góðar fyrir tveimur vikum og að hermennirnir á víglínunum við bæinn hafi ekki fengið nægan stuðning en áhyggjur hans hafi verið virtar að vettugi.

Lapin hafi í kjölfarið fært höfuðstöðvar sínar í um 150 kílómetra fjarlægð frá bænum og spyr Kadyrov hvernig herforinginn hafi ætlast til þess að geta leitt hermenn sína úr slíkri fjarlægð.

Kadyrov segir skömmustulegt að yfirmenn hersins verji Lapin. Einræðisherrann segir að réttast væri að gera Lapin að óbreyttum hermanni og senda á víglínurnar í Úkraínu, svo hann geti goldið fyrir syndir sínar með blóði.

Þá sagðist Kadyrov ekki vera meðvitaður um hvaða upplýsingar Pútín fengi frá Varnarmálaráðuneyti Rússlands en hans skoðun væri sú að grípa þyrfti til harðra aðgerða. Setja þyrfti á herlög við landamæri Úkraínu og nota smáar kjarnorkusprengjur gegn Úkraínumönnum.

Annars sé erfitt að segja til um hvað muni gerast í framhaldinu.

Max Seddon, blaðamaður Financial Times í Rússlandi, segir Kadyrov fyrsta rússneska ráðamanninn til að kalla með beinum hætti eftir notkun kjarnorkuvopna.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands staðfesti í dag að rússneskir hermenn hefðu hörfað frá Lyman. Í nýjustu stöðuuppfærslu ráðuneytisins segir að Rússar hafi hörfað vegna hættu á því að þeir urðu umkringdir og að þeir hafi hörfað til að mynda hentugri varnarlínu.

Úkraínumenn höfðu varið nokkrum dögum í að umkringja borgina en svo virðist sem Rússar hafi hörfað áður en það tókst að fullu.

Fregnir hafa þó borist af því að Úkraínumönnum hafi tekist að valda miklu mannfalli í hersveitum Rússa og að þeir hafi handsamað fjölmarga rússneska hermenn. Þessar fregnir hafa ekki verið staðfestar en myndbönd sem hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum sýna að Úkraínumenn hafi ráðist á nokkrar bílalestir Rússa.

Rétt í þessu hafa fregnir borist af miklum sprenginum og eldi á flugstöð á Krímskaga. Rússneskir ráðamenn segja eld hafa kviknað í flugvél.


Tengdar fréttir

Lyman er í höndum Úkraínumanna

Úkraínumenn hafa rekið Rússa á brott frá bænum Lyman í norðanverðu Donetsk-héraði. Talsmaður úkraínska hersins sagði í morgun að allt að 5.500 rússneskir hermenn hefðu verið umkringdir þar en meirihluti þeirra virðist hafa flúið áður en borgin var umkringd.

Putin segir Vesturlönd sækja að Rússum með skemmdarverkum og úrkynjun

Úkraína hefur óskað eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu með hraði eftir að Rússlandsforseti setti á svið innlimun fjögurra héraða í landinu með athöfn í Kreml í dag. Utanríkisráðherra segir ekkert mark takandi á svo kölluðum kosningum í þessum héruðum þar sem varla fannst maður á móti innlimuninni.

Svíar á svæðinu sólar­hring áður en meint skemmdar­verk átti sér stað

Fjórir lekar fundust á Nord stream 1 og 2 gasleiðslurnar í Eystrasalti á dögunum og telur Atlantshafsbandalagið að um skemmdarverk hafi verið að ræða. Norrænir jarðskjálftamælar urðu varir við tvær sprengingar á svæðinu. Sænski sjóherinn sinnti eftirliti á svæðinu þangað til sólarhring áður en meintu skemmdarverkin áttu sér stað.

„Þetta sýnir ekki styrk. Þetta sýnir veikleika“

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), segir ólöglega innlimun Rússlands á fjórum héruðum Úkraínu vera mikla stigmögnun í tengslum við innrás Rússa hingað til. Ákvörðun Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, hefði þó ekki áhrif á eðli átakanna eða stuðning NATO við Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×