
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar hóf sérstaka umræðu um öryggis- og varnarmál á Alþingi í dag. Staðan hefði gjörbreyst eftir inrás Rússa í Úkraínu og tók forsætisráðherra undir þau sjónarmið.
Formaðurinn sagði að efla þyrfti samstarfið við NATO og Bandaríkjamenn í tengslum við varnarsamninginn og tryggja varnir Íslands á öllum sviðum. Rússar hafi kortlagt sæstrengina við landið og síðast í ágúst verið með herskip í íslenskri lögsögu.
„Nú þegar Ísland er skilgreint sem óvinveitt ríki í augum þeirra og ekki síst í ljósi þess að spennan á Norðurslóðum fer vaxandi, þarf að fá það á hreint hvort fjarskiptaöryggi okkar og samskipti við umheiminn séu nægilega tryggð. Og nú hafa enn ríkari ástæður til þess skapast eftir skemmdirnar á Nord Stream gasleiðslunni í Eystrasaltinu,“ sagði Þorgerður Katrín.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði samstöðu ríkja um þjóðaröryggisstefnu Íslands sem samþykkt hefði verið árið 2016. Á grundvelli hennar og samstarfsins við NATO hefðu framlög til varnarmála verið aukin á síðasta kjörtímabili. Unnið væri að uppfærslu áætlunarinnar eftir innrás Rússa.
„Það verkefni að tryggja varnir landsins snýst ekki aðeins um hefðbundna hernaðarlega ógn heldur líka um netöryggi, fjarskiptaöryggi og öryggi okkar mikilvægu innviða. Háttvirtur þingmaður nefnir hér hinar ógnvæglegu fréttir sem hafa borist af skemmdarverkum á gasleiðslum í Eystrasaltinu. Þessir atburðir færa ógnina mjög nærri okkur sem nú steðjar að. Við höfum fylgst grannt með þessum atburðum, verið í samskiptum við okkar nágrannaríki um aðgerðir og viðbúnað og munum bregðast við í samræmi við þau gögn sem við fáum,” sagði forsætisráðherra.

Þorgerður spurði hvaða mat hefði verið lagt á kosti viðvarandi veru varnarliðs á Íslandi. Forsætisráðherra sagði það ekki forgangsmál hjá ríkisstjórninni.
„Það er nokkuð sem ég hef meðal annars rætt á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og ekki fengið kröfu um þaðan,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.