Erlent

Fellibylurinn í myndskeiðum: Ian skilur eftir sig mikla eyðileggingu í Flórída

Samúel Karl Ólason skrifar
Ian olli miklum skemmdum í Flórída í gær og í nótt.
Ian olli miklum skemmdum í Flórída í gær og í nótt. AP

Útlit er fyrir að fellibylurinn Ian, sem gekk á land í Flórída í Bandaríkjunum í gær, hafi valdið gífurlegum skemmdum í sjávarbyggðum þar. Myndbönd frá Flórída sem tekin voru í gær og í nótt sýna að sjór gekk langt inn á land og olli mikilli eyðileggingu.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lýsti yfir miklum hamförum í Flórída, til að auðvelda aðgengi yfirvalda að neyðarsjóðum.

Fjöldi fólks er innlyksa í húsum sínum vegna flóða og tvær milljónir manna eru án rafmagns á suðvestanverðum Flórídaskaga í Bandaríkjunum eftir að fellibylurinn Ian gekk þar yfir í nótt. Fellibylurinn er einn sá öflugasti sem gengið hefur á land í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Tvær milljónir án rafmagns og fólk innlyksa eftir Ian

Ian var fjórða stigs fellibylur þegar hann gekk á land á Flórída með vindhraða upp á 67 metra á sekúndu. Hann var þá fimmti öflugasti fellibylur í sögu Bandaríkjanna hvað varðar vindhraða. Seint í gærkvöldi hafði dregið úr krafti bylsins sem var þá kominn niður á fyrsta stig. Hann stefnir nú út á Atlantshafið.

Fógeti í Lee-sýslu í Flórída sagðist fyrir skömmu búast við því að hundruð hefðu dáið vegna Ians.

Hér að neðan má sjá myndefni frá AP fréttaveitunni og af samfélagsmiðlum sem að mestu var tekið upp í gær.


Tengdar fréttir

Ian muni valda gríðarlegri eyðileggingu í Flórída

Fellibylurinn Ian hefur hefur valdið gríðarlegum flóðum á vesturströnd Flórída síðan hann gekk á land í kvöld, klukkan sjö að íslenskum tíma. Ríkisstjóri segir viðbúið að fellibylurinn muni skilja eftir sig gríðarlegar rústir. Bylurinn hefur þegar valdið tveimur dauðsföllum á Kúbu og rafmagnsleysi um alla eyjuna. 

Milljónum sagt að flýja undan Ian sem nálgast fimmta stigið

Fellibylurinn Ian stefnir hraðbyri á Flórída í Bandaríkjunum eftir að hafa valdið mikilli eyðileggingu og dauðsföllum á Kúbu. Heitur sjór á Mexíkóflóa hefur gefið fellibylnum aukinn kraft og er hann skilgreindur sem fjórða stigs fellibylur og sagður nálægt fimmta stiginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×