Nelson hafði toppað fjallið, sem er það áttunda hæsta á jörðinni, og var á leiðinni niður á skíðum. Talið var að hún hefði fallið í sprungu en lík hennar fannst á suðurhlið toppsins á Manaslu.
Nelson var talin einn flottasti göngukappi sinnar kynslóðar. Hún varð sú fyrsta til að skíða niður af toppi Lhotse fjalls í Nepal árið 2018 með félaga sínum Jim Morrison. Lhotse er fjórða hæsta fjall jarðar.
Þá var hún líka fyrst kvenna til að toppa hæsta fjall jarðar, Everest, og það fjórða hæsta, Lhotse, á innan við sólarhring. Morrison og þrír nepalskir leiðsögumenn fóru með þyrlu upp í um sex þúsund metra hæð á Manaslu í morgun. Þar fundu þeir og endurheimtu lík Nelson.
Líkið var flutt í grunnbúðir Manaslu og verður í framhaldinu flogið til Kathmandu.
Nepalskur göngukappi fórst og á annan tug slösuðust í snjóflóði á mánudag, sama dag og tilkynnt var um hvarf Nelson. Veður í fjöllunum hefur gert gönguköppum erfitt fyrir. Bæði miklar rigningar og snjókoma. Nelson hafði sagt í færslu á Instagram í síðustu viku að henni hefði aldrei liðið eins óöruggri í þunna loftinu í Himalayjafjöllunum.
Að neðan má sjá snjóflóð sem féll í hlíðum Manaslu, rétt ofan við grunnbúðir, á laugardag.