Málið vakti mikla athygli á sínum tíma en víst er að fulltrúum Bændasamtakanna blöskruðu téð ummæli, sem ekki hafa enn fengist nákvæmlega staðfest hver í raun voru, því Sigurður Ingi hefur þverneitað að greina frá því á þeim forsendum að þau séu ekki eftir hafandi. En þau snéru að húðlit Vigdísar.
Í bréfi til þess sem kvartaði segir að forsætisnefndin hafi engar aðrar upplýsingar um málavexti en komið hafa fram í fjölmiðlum. Vísað er til þess að Sigurður Ingi hafi beðist afsökunar á þeim án þess að lýsa ummælunum nánar eða endurtekið.
„Þá hefur sá aðili sem ummælin vörðuðu lýst því að hún hafi átt fund með SIJ þar sem hann hafi borið fram „einlæga afsökunarbeiðni“ sem hún hafi meðtekið.“
Að þessu virtu og með hliðsjón af niðurstöðu forsætisnefndar í máli Ágústs Ólafs Ágústssonar er það mat forsætisnefndar að ekki sé tilefni til frekari umfjöllunar og að erindinu beri að vísa frá.
Málsmeðferð sem grafi undan tiltrú á Alþingi
Fulltrúar minnihlutans í forsætisnefnd hafa hins vegar mótmælt þessari afgreiðslu. Á fundi forsætisnefndar 9. september 2022 lögðu Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Jódís Skúladóttir, ásamt áheyrnarfulltrúunum Andrési Inga Jónssyni og Þorbjörgu Gunnlaugsdóttur, sameiginlega fram eftirfarandi bókun:
„Mótmælt er ákvörðun fulltrúa Framsóknar og Sjálfstæðisflokks að vísa frá því erindi sem barst forsætisnefnd um meint brot Sigurðar Inga Jóhannssonar á siðareglum fyrir alþingismenn. Erindið barst þann 8. apríl sl. og nú fimm mánuðum síðar er málinu vísað frá. Engin efni voru til að draga afgreiðslu málsins mánuðum saman.

Töf á afgreiðslu mála sem þessara hefur áhrif á trúverðugleika málsmeðferðar sem og niðurstöðu,“ segir í þeirri bókun. Meirihluti nefndarinnar samanstendur af þeim Birgi Ármannssyni, Líneik Önnu Sævarsdóttur og Diljá Mist Einarsdóttur.
Þar er því haldið fram að hinn eðlilegi farvegur málsins hefði verið að fá ráðgefandi siðanefnd sem fyrst til að leggja mat á málið, og hvort um brot var að ræða og gefa álit sitt að því loknu, frekar en að vísa erindinu nú frá á grundvelli takmarkaðra upplýsinga.
„Fer þessi málsmeðferð gegn þeim tilgangi og markmiðum siðareglna fyrir alþingismenn að efla tiltrú og traust almennings á Alþingis.“