Erlent

Sagði mikilvægt að gefa Rússum ekki andrými til að efla varnir sínar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það var engan bilbug að finna á Selenskí þrátt fyrir herkvaðningu og hótanir Rússlandsforseta í gær.
Það var engan bilbug að finna á Selenskí þrátt fyrir herkvaðningu og hótanir Rússlandsforseta í gær. epa/Sergey Dolzhenko

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti virðist ekki gefa mikið fyrir tilraunir Rússa til að stigmagna átökin í Úkraínu með því að boða til herkvaðningar.

Í ávarpi sem tekið var upp fyrirfram og spilað á þingi Sameinuðu þjóðanna í gær saðgi forsetinn að Úkraínher myndi halda áfram gagnsókn sinni og ekki gefa Rússum andrými til að treysta varnir sínar á hernumdum svæðum.

Selenskí sagði Úkraínumenn geta náð aftur því landsvæði sem Rússar hefðu tekið en til þess þyrftu þeir tíma. Hann sagði Rússa vilja efla varnir sínar á meðan þeir söfnuðu liðsauka heima fyrir en það mætti ekki gerast.

Forsetinn sagði frið mögulegan að fimm skilyrðum uppfylltum; þeirra á meðal væru endurheimt hernumdra landsvæða, öryggistryggingar og refsing til handa þeim sem hefðu brotið gegn Úkraínu. „Glæpur hefur verið framin gegn Úkraínu og við krefjumst réttlátrar refsingar,“ sagði Selenskí.

Hann sagði að koma ætti á sérstökum dómstól til að fjalla um glæpi Rússa gegn Úkraínu og að Rússar ættu að gjalda fyrir þá með eigum sínum. Þá hvatti hann Sameinuðu þjóðirnar til að svipta Rússa neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu.

Selenskí vísaði til þeirra hroðaverka sem hefðu verið framin, meðal annars í Izium, og lýsti því hvernig uppgrafnar líkamsleifar almennra borgara sýndu þess merki pyntinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×