Úkraínumenn segjast hafa endurheimt um átta þúsund ferkílómetra svæði í Karkív-héraði í norðausturhluta Úkraínu - en Pútín kveðst ekkert vera að flýta sér. Hernaður Rússa á svæðinu gengi samkvæmt áætlun og þá benti hann á að Rússar hefðu hingað til ekki fullnýtt herafla sinn.
Joe Biden Bandaríkjaforseti tjáði sig einnig um stöðuna í Úkraínu í gær; ítrekaði ákall sitt til Rússa um að grípa ekki til efna- eða kjarnorkuvopna.
Í gær var greint frá því að á fimmta hundrað lík, sem flest bera merki pyntinga, liggi grafin í ómerktum fjöldagrafreit í útjaðri hinnar nýfrelsuðu borgar Izium í áðurnefndu Karkív-héraði. Lögregluyfirvöld í Úkraínu hyggjast senda þúsund manna liðsauka til borgarinnar.