Fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarp næsta árs var framhaldið á Alþingi í morgun og áætlað að umræðunni ljúki í kvöld. Einstakir ráðherrar ræða sína málaflokka í dag og reið Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á vaðið.
Katrín sagði miklar breytingar hafa átt sér stað frá árum kórónuveirufaraldursins sem kallað hefði á mikil fjárframlög ríkissjóðs sem leitt hafi til mikils hallareksturs. Mestur hefði hallinn orðið árið 2020 eða um 240 milljarðar. Í frumvarpinu væri gert ráð fyrir 89 milljarða halla á næsta ári. Nú þyrfti að draga úr þenslu og verðbólgu.
„Styrkja um leið og verja almannaþjónustuna velferðina, afkomu tryggingakerfin, styrkja húsnæðismarkaðinn. Þar stendur auðvitað yfir stefnumótun þannig að það eitt og sér er ekki nægjanleg heimild um hvert við stefnum í því,“ sagði Katrín.

Fjárlög snúast um hvernig ríkissjóður aflar tekna og í hvaða verkefni tekjurnar fara. Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar vitnaði til fyrri yfirlýsinga forsætisráðherra um réttlæti þess að þeir sem einungis hefðu fjármagnstekjur greiddu hluta tekna sinna í útsvar til sveitarfélaga.
„Hér er um réttlætismál að ræða þar sem fjármagnseigendur eru sá hópur sem í fyrra jók mest tekjur sínar. Ríkasta fólkið í landinu jók tekjur sínar mest á síðasta ári,“ sagði Logi og spurði hvað ríkisstjórnin hygðist gera.
Forsætisráðherra sagði fjármagnstekjuskattinn hafa verið hækkaðan um tvö prósentustig á síðasta kjörtímabili. Fjármálaráðherra væri síðan með frumvarp í smiðum samkvæmt stjórnarsáttmála um frekari breytingar sem væntanlegt væri á vorþingi.
„Þetta lít ég á sem réttlætismál, þau sem eingöngu hafa þessar tekjur, að þau leggi sitt af mörkum til sveitarfélaga. Það séu skýrt kveðið á um það, það sé engin mismunun í skattlagningu innan þess kerfis. Þannig að við munum sjá breytingar á þessum málum. Við eigum hins vegar eftir að sjá nákvæma útfærslu á þeim,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.