Fótbolti

Baulað á Ha­kimi í Ísrael

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hakimi vill sjá frjálsa Palestínu.
Hakimi vill sjá frjálsa Palestínu. EPA-EFE/Mohammed Badra

Achraf Hakimi, leikmaður París Saint-Germain, er greinilega ekki vinsæll í Ísrael. Ástæðan er sú að Hakimi, sem er frá Marokkó, hefur opinberlega stigið fram og stutt að Palestína verði frjálst ríki.

Hakimi var á varamannabekk PSG þegar liðið sótti Maccabi Haifa heim í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld. Staðan var 2-1 gestunum í vil þegar Hakimi kom inn af bekknum en við það var baulað gríðarlega.

Þetta er í annað skiptið sem baulað er á Hakimi í Ísrael en þetta gerðist einnig í sumar þegar PSG mætti Nantes þar í leiknum um franska Ofurbikarinn.

Eins og sjá má hér að ofan er tíst sem Hakimi skrifaði þann 10. maí árið 2021 kveikjan að bauli Ísraelsmanna. Baulið virðist ekki hafa haft áhrif á Hakimi eða liðsfélaga hans en liðið fór með 3-1 sigur af hólmi þökk sé mörkum Lionel Messi, Kylian Mbappé og Neymar.

PSG er á toppi H-riðils með sex stig líkt og Benfica en þau mætast í næstu umferð keppninnar. Hér að neðan má sjá mörkin úr leik gærkvöldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×