Verðbólgan fór hæst í 9,9 prósent í júlí eftir töluverðan upphækkunartakt síðustu misseri. Í ágúst fór verðbólgan hins vegar að mjakast niður á við og mældist verðbólgan þá 9,7 prósent.
Hagfræðideild Landsbankans telur að almennt verðlag hækki um 0,35 prósent á milli ágúst og september.
„Gangi spáin eftir verður ársverðbólgan 9,6% og yrði það þá frekari staðfesting þess að verðbólga hafi þegar náð hámarki hér á landi,“ segir í spá bankans.
Samkvæmt spá bankans verður stærsti áhrifaþátturinn til hækkunar verðlags í september matur og drykkjarvörur sem við gerum ráð fyrir að hækki um 1,2%. Ástæðan fyrir svo mikilli hækkun er fyrst og fremst hækkun á heildsöluverði mjólkurvara.
Þá telur hagfræðideidin að merki séu um kólnun á fasteignamarkaði.
„Líklegt er að miklar verðhækkanir á fasteignamarkaði séu að baki og við taki mun hóflegri hækkanir. Við spáum því að vísitala íbúðaverðs hækki um 0,6% á næstu mánuðum en það yrðu mun minni hækkanir en verið hefur. Slíkar hækkanir yrðu einnig í meira samræmi við sögulega verðþróun á markaðnum.“
Er það mat bankans að verðbólgan hafi náð hámarki og munu fara lækkandi næstu mánuði.

„Frá því í vor höfum við spáð því að verðbólga myndi ná hámarki síðsumars og síðan myndi taka við hæg hjöðnun hennar. Þetta hefur gengið eftir og erum við enn þá þeirri skoðun að verðbólga muni hjaðna hægt og bítandi á næstu mánuðum. Þannig spáum við 9,3% verðbólgu í október, 8,9% í nóvember og 8,8% í desember. Helstu óvissuþættirnir í spánni snúa að gengisþróun krónunnar, heimsmarkaðsverði á olíu og síðast en ekki síst fasteignamarkaði. Verði önnur þróun á þessum liðum en við gerum ráð fyrir verður verðbólga önnur en við spáum.“