Borgin Karachi er stærsta borg Pakistan og er í Sindh-héraðinu. Héraðið er eitt þeirra sem hefur orðið fyrir mestu áhrifum rigningarinnar og flóðana sem hafa verið í Pakistan síðustu mánuði. 33 milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín og fjórtán hundruð manns látið lífið.
Nú bætist grátt ofan á svart fyrir Pakistani því einnig er beinbrunasóttarfaraldur í Karachi en íbúar borgarinnar búa margir hverjir í hjálparmiðstöðvum sem eru einhverjar orðnar yfirfullar af fólki. Yfirvöld óttast að sjúkdómurinn muni þannig dreifa sér enn hraðar.
Samkvæmt Embætti landlæknis eru helstu einkenni beinbrunasóttar höfuðverkur, bein- og liðverkir og upphleypt útbrit. Flestir ná sér af sjúkdómnum á nokkrum dögum. Þó fá einhverjir blæðandi beinbrunahitasótt sem einkennast af háum hita, blæðingum í slímhúð og lifrastækkun. Helmingur þeirra sem eru með blæðandi beinbrunahitasótt láta lífið ef þeir fá ekki rétta meðferð.