Viðskipti innlent

„Við erum hér til að sækja vernd fyrir nafnið á landinu okkar“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Deilan á milli íslenskra yfirvalda og forsvarsmanna verslunarkeðjunnar Icelanda hefur staðið yfir í nokkur ár.
Deilan á milli íslenskra yfirvalda og forsvarsmanna verslunarkeðjunnar Icelanda hefur staðið yfir í nokkur ár. Vísir

Munnlegur málflutningur í máli íslenskra stjórnvalda gegn bresku verslunarkeðjunni Iceland Foods vegna vörumerkjaskráningar verslunarkeðjunnar á orðinu Iceland hófst í morgun. 

Málflutningurinn fer fram í höfuðstöðvum Hugverkastofu Evrópusambandins á Alicante á Spáni. Þar hafa níu meðlimir fjölskipaðrar áfrýjunarnefndar stofnunarinnar hlustað á málflutning fulltrúa íslenskra yfirvalda og verslunarkeðjunnar.

Tekist á um hvort að fyrirtæki geti átt heiti fullvalda ríkis

Í afar stuttu máli snýst deilan um það hvort að fyrirtæki geti slegið eign sinni á heiti fullvalda ríkis, í þessu tilviki enska orðið Iceland. 

Ásdís Magnúsdóttir er lögmaður íslenska ríkisins í málinu.

Ísland hafði betur í deilunni á fyrri stigum málsins árið 2019. Iceland Foods áfrýjaði hins vegar niðurstöðunni. 

Ákveðið var að halda munnlegan málflutning vegna málsins, sem er afar sjaldgæft, og til marks um hversu mikilvægt það er talið.

Það er lögmaðurinn Ásdís Magnúsdóttir, frá Árnason Faktor, sem flytur málið fyrir hönd Íslands. 

„Við erum hér til að sækja vernd fyrir nafnið á landinu okkar,“ var á meðal þess sem kom fram í máli Ásdísar í morgun. Málflutningurinn er um það bil hálfnaður og lýkur síðdegis í dag. 

Áhugafólk um hugverkarétt fylgist grannt með

Margrét Hjálmarsdóttir, yfirlögfræðingur Hugverkastofunnar, er ein af þeim sem setið hefur límd við skjáinn í morgun til að fylgjast með málflutningi beggja aðila.

„Rök Íslands eru eins og verið hefur að heitið Iceland sé heiti fullvalda ríkis og ætti í raun að ráða yfir eigin heiti. Heitið eigi þar af leiðandi ekki að vera einkaréttur neins einstaklings eða fyrirtækis og hvað þá erlends fyrirtækis,“ segir Margrét um það sem fram hefur komið í morgun.

Margrét Hjálmarsdóttir er yfirlögfræðingur Hugverkastofunnar.

„Þau byggja líka á rökunum sem voru reifuð í úrskurði á fyrri stigum málsins, að neytendur í Evrópu hafi sterk söguleg tengsl við Ísland. Neytendur í Evrópu þekki heitið Iceland og tengi það við vörur frá Íslandi, telji þær vera frá Íslandi, alveg sama hvaða vörur það eru. Merkið Iceland skorti þar af leiðandi sérkenni sem er grundvallarkrafa í vörumerkjarétti, sé lýsandi fyrir landfræðilegan uppruna og villandi ef uppruninn er ekki frá Íslandi,“ segir Margrét.

Í málflutningum í morgun hefur einnig mátt heyra að málflutningur Íslands byggist á því Ísland gæti verið þekkt fyrir framleiðslu á hvaða vörum sem er. Á landinu sé fátt því til fyrirstöðu að framleiða allt mögulegt, sökum hás menntunarstigs, gnægð auðlinda og þar fram eftir götunum.

Breska verslunarkeðjan Iceland er fyrirferðarmikil á Bretlandi. Hún hefur lengst af sérhæft sig í frosnum vörum. Í málflutninginum í dag sagði Gerald Vos, lögfræðingur keðjunnar, að nafnið Iceland væri til marks um sérhæfingu keðjunnar í frosnum vörum.In Pictures/Corbis/Getty

Í málflutningi fyrir hönd Iceland Foods hefur Gerald Vos, lögmaður fyrirtækisins, reynt að draga úr þessu og sagt að í raun sé Ísland þekkt fyrir náttúrufegurð, fisk og fiskafurðir, en ekki mikið annað en það.

„Það er kannski hinn póllinn. Þeirra rök á móti er að Ísland er lítið, við erum norður í Atlantshafi, það er ekki byggilegt nema að litlu leyti, hér er kalt og dimmt og landið ekki vænlegt fyrir þá framleiðslu sem er tilgreind í flokkum umsóknarinnar.“

Endanleg niðurstaða hafi gríðarlega fordæmisgefandi áhrif

Hluti af málflutninginum er að meðlimir nefndarinnar hafa spurt bæði Ásdísi og Vos spjörunum úr, um hinu ýmsu hliðar málsins. Í fyrsta lögði þeir spurningar fram fyrirfram en þeir hafa einnig spurt viðbótarspurninga. Margrét segir að þetta sé kosturinn við hinn munnlega málflutning.

„Það er kosturinn við þennan munnlega málflutning að það kemst aðeins meira að heldur en í skriflegum málflutningi sem er meginreglan.“

Málflutningurinn stendur yfir í dag og að honum loknun mun nefndin fjalla um málið og úrskurða í því. Ekki er ljóst hvenær von er á niðurstöðu í málinu. Vonir standa þó til að það geti verið í byrjun næsta árs. Niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar er hægt að áfrýja til Evrópudómstólsins, sem myndi þá taka lokaákvörðun í málinu.

„Það væri þá endanleg niðurstaða sem hefði þá gríðarlega fordæmisgefandi áhrif inn í vörumerkjaréttinn, á hvorn veginn sem fer.“


Tengdar fréttir

Til marks um hve mikil­vægt Iceland-málið er talið vera

Það að fjölskipuð áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins hlýði á munnlegan málflutning í deilu íslenskra yfirvaldra og bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods um yfirráð yfir orðinu Iceland er talið til marks um hversu mikilvægt málið er talið vera. Vonast er til þess að niðurstaðan verði fordæmisgefandi.

Deila Íslands og Iceland Foods brýtur blað

Fjölskipuð áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins hefur fyrirskipað að haldinn verði munnlegur málflutningur í deilu íslenskra yfirvalda og bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods um yfirráð yfir orðinu Iceland. Deilan brýtur blað í sögu hinnar fjölskipuðu áfrýjunarnefndar þar sem þetta verður í fyrsta sinn sem nefndin hlýðir á munnlegan málflutning í áfrýjunarmáli.

Íslandi barst liðsauki frá Sviss í deilunni gegn Iceland Foods

Svissnesk samtök sem hafa það hlutverk að vernda orðspor þarlendrar framleiðslu hafa komið Íslandi til stuðnings í deilunni við bresku verslunarkeðjuna Iceland Foods. Framkvæmdastjóri samtakanna telur líklegt að deilan muni á endanum fara fyrir Evrópudómstólinn.

Er hægt að eignast vörumerkið Jamaíka og selja ís undir því nafni?

Eitt af þeim álitaefnum sem fjölskipuð áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) þarf að taka afstöðu til í deilu Íslands og verslunarkeðjunnar Iceland Foods er hvort að ásættanlegt sé að selja banana undir nafni Íslands eða ís undir nafni Jamaíku.

Deilu Íslands og Iceland Foods ekki lokið

Deilu íslenskra yfirvalda og bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods um yfirráð yfir orðinu Iceland er ekki lokið. Fjölskipuð áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) er með málið til umfjöllunar eftir að breska verslunarkeðjan áfrýjaði á síðasta ári úrskurði sem féll Íslandi í vil árið 2019.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×