Í þáttunum fá áhorfendur að fylgjast með þeim Birgittu Líf, Ástrós Trausta, Magneu Björg, Sunnevu Einars og Ínu Maríu. Í tilefni af því að ákveðið hefur verið að fara af stað í framleiðslu á fleiri þáttum gerðu stelpurnar nýtt myndband sem þær birtu á samfélagsmiðlum sínum rétt í þessu.
Það er augljóst að vinkonurnar hafa mikinn húmor fyrir umtalinu síðustu vikur eftir að þættirnir fóru í loftið.
„Ég hefði notið þáttanna betur ef Birgitta Líf hefði farið í reiðikast og sparkað í litla hundinn sinn þegar hún komst að því að lúxusþyrlan sem hún pantaði kæmist ekki upp í fjall til skvísuhópsins í fyrsta þætti. Hún hefði öskrað: „Veistu ekki hver ég er?” á einhvern undirlaunaðan aðstoðarmann um leið og hún hefði ýtt myndavélinni frá sér og strunsað í burtu,“ var meðal annars sagt um þættina í Lestinni á RÚV.
„Eða ef Magnea myndi í einstaklingsviðtölunum kalla Ínu Maríu heimska mellu fyrir að hafa hellt áfengum drykk yfir hausinn á henni í sundlauginni í öðrum þætti. Sunneva Einars færi í matarboð til tengdaföður síns, Bjarna Ben, þar sem kæmi í ljós að B. eldri væri ekki par sáttur við starfssvið tengdadótturinnar, hann myndi jafnvel kalla hana druslu eftir einum of mörg hvítvínsglös með humrinum. Benni litli og Sunneva yfirgæfu veisluna með tárin í augunum.“

Þættirnir LXS eru sýndir á miðvikudögum á Stöð 2 og er ljóst að áhorfendur munu fá að fylgjast með fleiri ævintýrum áhrifavaldanna í annarri þáttaröð sem fer í sýningu árið 2023.