Innlent

Reyndi að komast um borð í skemmti­ferða­skip

Atli Ísleifsson skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út þegar tilkynnt var um ölvaðan mann sem var til vandræða við Skarfabakka í Reykjavík, en maðurinn hafði reynt að komast um borð við skemmtiferðaskip sem þar lá við bryggju.

Frá þessu segir í tilkynningu frá lögreglu um verkefni hennar frá klukkan 17 í gærdag og til morguns. Ekki er tekið fram hvenær útkallið kom, en manninum var ráðlagt að sofa úr sér heima hjá sér.

Í tilkynningunni er sagt frá því að einnig hafi verið tilkynnt um hávaða frá íbúið í miðborg Reykjavíkur. „Kom í ljós að þar var listamaður í góðu stuði við vinnu sína að hlusta á tónlist. Lofaði hann að lækka í sér.“

Sömuleiðis var tilkynnt um ungmenni sem voru að kasta grjóti í rúður í hverfi 201 í Kópavogi. Þegar lögregla kom á vettvang var ein rúða brotin en gerendur farnir af vettvangi.

Ennfremur segir að tilkynnt hafi verið um krakka að reykja kannabis í miðborg Reykjavíkur, en í tilkynningu lögreglu segir að þeir hafi ekki fundist.

Þá segir að tilkynnt hafi verið um reyk í íbúðarhúnsæði í hverfi 200 í Kópavogi. Kom í ljós að þar hafði einhver gleymt sér við eldamennsku. „Reykræst og ekkert tjón.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×